Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, varar við því að ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að draga herlið sitt frá norðurhluta Sýrlands gæti skapað „eldfimt ástand“ á þessu svæði.
Bandarískar hersveitir hafa þegar hafist handa við að flytja hersveitir sínar frá svæðinu sem liggur að landamærum Sýrlands og Tyrklands. Með því er greið leið fyrir Tyrki að ráðast gegn Kúrdum við landamærin. Í gær hótaði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, Tyrkjum því að rústa efnahagslífi þeirra, gengju þeir lengra en eðlilegt væri.
Kúrdar „eru óttaslegnir“ vegna þeirra tilkynninga sem komið hafa frá Hvíta húsinu og óttast að ástandið verði eldfimt í kjölfar misvísandi skilaboða, sagði Lavrov. „Koma verður í veg fyrir þetta með öllum tiltækum ráðum.“