Dómari segir Trump hafa brotið lög

Donald Trump forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump forseti Bandaríkjanna. AFP

Dómari við alríkisdómstól í Bandaríkjunum komst að þeirri niðurstöðu í dag að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði brotið gegn alríkislögum þegar hann lýsti yfir neyðarástandi fyrr á þessu ári til þess að geta notað milljarða dollara til þess að reisa vegg á landamærum landsins að Mexíkó. Frá þessu er greint á fréttavef NBC-sjónvarpsstöðvarinnar.

Fram kemur í fréttinni að niðurstaðan sé sigur fyrir El Paso-sýslu í Texas-ríki og samtökin Border Network for Human Rights, sem barist hafa gegn því að veggurinn yrði reistur, sem höfðuðu málið fyrir dómstólnum á þeim forsendum að ekki væri lagaheimild fyrir því að verja meira fé til veggjarins en Bandaríkjaþing hefði samþykkt.

AFP

Trump óskaði eftir 5,7 milljörðum króna í janúar til þess að reisa vegginn en þingið samþykkti aðeins tæplega 1,4 milljarða. Forsetinn lýsti yfir neyðarástandi í febrúar og fyrirskipaði að fjármagn sem eyrnamerkt hafði verið fyrir framkvæmdir á vegum bandaríska varnarmálaráðuneytisins yrði þess í stað notað til þess að reisa vegginn.

Dómarinn David Briones komst að þeirri niðurstöðu að Trump hefði brotið gegn ákvæði í fjárlögum þar sem segir að ekki sé heimilt að nota annað fjármagn til þess að reisa landamæravegginn. Gert er ráð fyrir að ríkisstjórnin áfrýji dómnum.

Dómurinn kemur ekki í veg fyrir að 2,5 milljarðar króna af fé varnarmálaráðuneytisins, sem nota átti til þess að berjast gegn fíkniefnasmygli, verði notaðir í vegginn en Hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði því fyrr á þessu ári að koma í veg fyrir að það fé yrði notað í framkvæmdina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert