Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Mark Esper, segir að forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hafi fyrirskipað að allt að eitt þúsund hermenn verði fluttir frá norðurhluta Sýrlands. Um er að ræða nánast allan herafla Bandaríkjamanna í Sýrlandi. Á sama tíma hafa hersveitir Tyrkja stóraukið árásir sínar í Sýrlandi.
Líkt og fram kom á mbl.is í gær hafa Kúrdar gert samkomulag við stjórnvöld í Sýrlandi um stuðning í baráttunni við innrás Tyrkja. Esper sagði í viðtali við CBS í gær að bandarískir hermenn á svæðinu hafi lent á milli tveggja andstæðra herja og það hafi verið óásættanleg staða.
Tyrkir hófu innrás í Sýrland eftir að Donald Trump ákvað að bandarískir hermenn færu frá norðurhluta Sýrlands en þar höfðu þeir unnið með hersveitum Kúrda í baráttunni gegn vígasamtökunum Ríki íslams.
Nokkrir tugir almennra borgara hafa verið drepnir af hersveitum Tyrkja auk hermanna úr liði Kúrda. Allt að 160 þúsund manns hafa neyðst til þess að flýja heimili sín undan árásum Tyrkja.