Bandaríski hægriöfgamaðurinn Greg Johnson, sem vísa átti úr landi í Noregi í gær, er þar enn. Búist er við því að hann muni fara úr landi síðar í dag. Hann var handtekinn á laugardaginn með heimild í útlendingalögum, en tilgangur heimsóknar Johnson til Noregs var að koma fram á Scandza Forum, ráðstefnu norskra þjóðernissinna.
Handtaka og brottvísun Johnsons var hluti af fyrirbyggjandi aðgerðum norsku lögreglunnar og norsku öryggislögreglunnar PST, samkvæmt talsmanni PST til að stemma stigu við uppgangi hægriöfgaafla.
Lögmaður Johnsons, John Christian Elden, sagði í samtali við norska dagblaðið Aftenposten í morgun að Johnson myndi fljúga til Ungverjalands á kostnað ríkisins og þaðan myndi hann fara til Lissabon í Portúgal, en þar stendur til að hann muni koma fram á ráðstefnu. „Lögreglan áttaði sig á því í gær að hún hefði enga heimild til að neita honum um að ferðast þangað sem hann lysti í Evrópu,“ sagði Elden við Aftenposten.
Johnson er ritstjóri vefsíðunnar og bókaútgáfunnar Counter-Currents sem meðal annars hefur sent frá sér bækur á borð við The White Nationalist Manifesto og Towards a New Nationalism sem auk annars efnis útgáfunnar hampa yfirburðum hvíta kynstofnsins.
Í fyrrnefndu bókinni segir hann m.a. að fjölmenningarsamfélagið sé félagsfræðileg tilraun sem alþjóðlegir forréttindahópar hafi þvingað upp á þjóðir sem ekkert vilji hafa með þessa þjóðfélagsgerð.