Rússnesk og kínversk stjórnvöld eru í hópi þeirra ríkja sem harma þá ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta að segja Bandaríkin frá Parísarsamkomulaginu. Ríkisstjórn Bandaríkjanna tilkynnti Sameinuðu þjóðunum formlega í gærkvöldi um úrsögn sína, en um eins árs ferli er að ræða og tekur úrsögnin gildi daginn eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á næsta ári.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti sem reyndi án árangurs að telja Trump á að hætta við þessa fyrirætlun sína sagðist einnig harma ákvörðunina. „Við hörmum þetta og þetta gerir samstarf Frakklands og Kína um loftslagsmál og líffræðilegan fjölbreytileika jafnvel enn nauðsynlegra,“ sagði Macron. Hann er nú í opinberri heimsókn í Kína, en ekkert ríki losar í dag meira af gróðurhúsaloftegundum.
Kínversk stjórnvöld kváðust einnig harma ákvörðunina. „Við vonum að Bandaríkin muni taka aukna ábyrgð og gera meira til að auka þetta fjölþjóða samstarfsferli í stað þessa að auka á neikvæða orku,“ sagði Geng Shuang talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins.
Rússnesk stjórnvöld vara þá við að verulega dragi úr vægi Parísarsamkomulagsins með úrsögn Bandaríkjanna. „Án þátttöku stærsta efnahagsveldis heims þá er mjög, mjög erfitt að ræða um nokkurs konar loftslagssáttmála,“ sagði Dmitry Peskov talsmaður rússnesku stjórnarinnar.
Samkomulagið skuldbindur 188 ríki til þess að vinna saman gegn loftslagsbreytingum. Fulltrúar 187 ríkja auk Bandaríkjanna undirrituðu samkomulag í París árið 2015 um að halda hlýnun jarðar af mannavöldum innan 2°C marksins og jafnvel undir 1,5°C.
Donald Trump gerði hins vegar úrsögn Bandaríkjanna úr samkomulaginu eitt af kosningamálum sínum. Eftir að hann tilkynnti fyrst um þessa fyrirætlun sína sögðust ýmis ríki og borgir Bandaríkjanna að þau myndu grípa til eigin aðgerða til að draga úr losun. Kalifornía hefur þar verið framarlega í flokki og hefur Trump reynt að koma í veg fyrir að ríkið nái að herða staðla um losun frá bílum. Þá hefur hann einnig leyft ríkjum Bandaríkjanna að setja eigin staðla um kolabrennslu orkuvera.
Þvert á svartsýnustu spár hefur sú ákvörðun Trumps að segja Bandaríkin frá Parísarsamkomulaginu hins vegar ekki haft þau dómínóáhrif sem spáð var og hafa ríki á borð við Brasilíu og Ástralíu þannig til að mynda ekki fylgt á hæla hans. Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu og skoðanabróðir Trump, hefur þó gert lítið úr umhverfisverndarsinnum en hefur til þessa ekki gengið svo langt að hóta úrsögn frá Parísarsamkomulaginu.
Trump hefur ítrekað fordæmt þá sem berjast gegn loftslagsbreytingum og sagt þá forréttindasinna. Skoðanakönnun sem Washington Post gerði í síðasta mánuði bendir þó til að hann sæti vaxandi andstöðu varðandi loftslagsmálin í eigin flokki og eru nú um 60% repúblikana þeirrar skoðunar að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum.