Emmanuel Macron Frakklandsforseti lýsir Atlantshafsbandalaginu (Nató) sem „heiladauðu“ í viðtali við tímaritið Economist. Kveðst Macron með þessu vera að vísa til hverfandi hollustu Bandaríkjanna, eins helsta stuðningsmanns þessa samstarfs, gagnvart Nató. BBC greinir frá.
Nefndi Macron sem dæmi að Bandaríkin hefðu til að mynda ekki ráðfært sig við Nató áður en þau ákváðu að draga herlið sitt frá norðurhluta Sýrlands. Segir Economist Macron draga í efa hvort að Nató-ríkin séu enn samstíga varðandi varnarsamstarfið, en fagna á því í London í næsta mánuði að 70 ár eru liðin frá stofnun bandalagsins.
Varaði Macron Evrópuríkin þá við því að þau geti ekki lengur treyst á Bandaríkin til að verja Nató samstarfið, sem komið var á í upphafi Kalda stríðsins til að auka öryggi Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna.
Fimmta grein Nató sáttmálans kveður á um að árás á eitt aðildarríkjanna muni kalla á samhæfðar aðgerðir annarra ríkja bandalagsins. Macron kvaðst hins vegar ekki vera viss um að þessi grein sé enn í gildi. „Ég veit það ekki,“ sagði hann.
Bandalagið virkar hins vegar „aðeins ef trygging er fyrir starfsemi þess sem lokaúrræðis. Ég myndi færa rök fyrir því að við þurfum að endurmeta hvað Nató er í ljósi hollustu Bandaríkjanna,“ sagði Macron
Hvatti hann leiðtoga Evrópu þess í stað til þess að fara að hugsa um landfræðilegan styrk álfunnar til að tryggja að Evrópa viðhaldi stjórn á eigin örlögum.