Sprenging í sprengjutilræðum í Svíþjóð

AFP

Svíþjóð hefur hingað til þótt fremur friðsælt land en það gæti verið að breytast miðað við þann fjölda sprenginga sem þar hafa orðið í ár. Á fyrstu tíu mánuðum ársins voru þær 99 talsins og eru þegar komnar yfir 100. 

Að sögn ríkislögreglustjóra Svíþjóðar, Anders Thornberg, er Svíþjóð hér með sérstöðu því þessi þróun á sér ekki alþjóðlega hliðstæðu. Hann lýsti í vikunni yfir áhyggjum af ástandinu en talið er að rekja megi þessa þróun til framgangs skipulagðrar glæpastarfsemi. 

Í síðustu viku sprakk sprengja í stigagangi í fjölbýlishúsi í Malmö, sprengiefni fannst fyrir utan verslunarmiðstöð í Kristianstad og sprengja sprakk á svölum íbúðar í Hassleholm. Sjaldnast hefur fólk meiðst í þessum sprengingum, að minnsta kosti alvararlega. Á fyrstu tíu mánuðum síðasta árs voru sprengjutilræðin 76 talsins.

Sprengjurnar eru ólíkar að stærð og þær hafa sprungið í fjölbýlishúsum, við lítil fyrirtæki og lögreglustöðvar. 

Á fyrstu tíu mánuðum ársins var tilkynnt um 268 skotárásir og 33 dauðsföll í Svíþjóð en í fyrra voru skotárásirnar 248 og dauðsföllin vegna þeirra 37 á sama tímabili. 

Dagens Nyheter greindi frá því að flestir þeirra sem hafi látist í skotárásum í ár séu ungir karlmenn, á aldrinum 20-29 ára, og er aukningin í þeim aldurshópi 200%.

Á sama tíma virðist traust á lögreglu aukast og færri íbúar verði fyrir glæpum, samkvæmt frétt á vef sænsku lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert