Fyrirfór sér eftir fund vopnasafns

Hluti þeirra 2.300 skotvopna sem fundist hafa við framkvæmd hinnar …
Hluti þeirra 2.300 skotvopna sem fundist hafa við framkvæmd hinnar þriggja ára löngu Bonanza-aðgerðar norsku lögreglunnar. Ljósmynd/Norska lögreglan

„Ég get ekki sagt neitt annað en að ég keypti hana ólög­lega, þannig eru regl­urn­ar bara. Ég keypti hana af glæpa­manni.“ Þetta seg­ir marg­dæmd­ur 48 ára gam­all af­brotamaður í Skien, suðvest­ur af Ósló, þegar hann út­skýr­ir fyr­ir blaðamanni dag­blaðsins VG hvernig á því stend­ur að lög­regl­an fann hlaðna 45 kalíbera hálf­sjálf­virka Colt-skamm­byssu í fata­skáp í svefn­her­berg­inu hans 11. októ­ber í fyrra.

Reynd­ar fann lög­regl­an ým­is­legt fleira hjá Skien-bú­an­um sem hef­ur hlotið fjölda dóma síðastliðin 25 ár og má þar nefna stol­in vél­hjól, am­feta­mín og skot­færi. 

Skrán­ing­ar­núm­er Colt-byss­unn­ar fannst ekki á skrám lög­regl­unn­ar yfir stol­in og horf­in vopn og var þá leitað til ann­ars aðila sem gæti vitað meira — norska hers­ins.

Þar fannst skrán­ing­ar­núm­er Colt-byss­unn­ar strax á lista yfir skot­vopn sem fargað hafði verið árið 2008, eða svo var að minnsta kosti hald þeirra manna sem fara með birgðastjórn­un skot­vopna hers Nor­egs.

Bon­anza-aðgerð lög­regl­unn­ar

Lög­regl­an í suðaust­urum­dæm­inu hef­ur um þriggja ára skeið haldið úti aðgerðinni Bon­anza sem geng­ur út á að koma upp um af­drif mörg hundruð skot­vopna sem horfið hafa úr geymsl­um lög­reglu um gerv­all­an Nor­eg. Aðgerðin leiddi lög­regl­una í óvænta átt, heim til eins af henn­ar eig­in lög­mönn­um, Peter Rist­an við embættið í Lillestrøm. Í sér­út­búnu skot­vopna­her­bergi í kjall­ar­an­um fann hús­leit­ar­sveit frá lög­regl­unni 130 skamm­byss­ur, riffla og hagla­byss­ur sem horfið höfðu úr ranni lög­regl­unn­ar á nokk­urra ára tíma­bili. Þetta var 14. fe­brú­ar 2017 en lög­regla greindi ekki frá aðgerðinni fyrr en í maí á þessu ári. Hún þagði þó um Rist­an og hans þátt. Frá þeim hluta máls­ins greindi VG fyrst nú í lok októ­ber.

Hluti vopnanna sem fundust við húsleit heima hjá Peter Ristan, …
Hluti vopn­anna sem fund­ust við hús­leit heima hjá Peter Rist­an, lög­manni lög­regl­unn­ar í Lillestrøm. Hann var ekki yf­ir­heyrður nema einu sinni áður en hann svipti sig lífi á skrif­stofu sinni og skildi eft­ir bréf sem leiddi lög­reglu að 400 skot­vopn­um til viðbót­ar sem hann hafði stungið und­an. Ljós­mynd/​Norska lög­regl­an

Lög­regla hafði haft auga á Rist­an um nokk­urt skeið vegna gruns um að hann styngi skot­vopn­um und­an í ókunn­um til­gangi. Það sem lög­regl­an ekki vissi var að Rist­an vissi að hann var und­ir smá­sjá. Það hafði hann ein­fald­lega fundið út gegn­um sinn eig­in aðgang að kerf­um lög­regl­unn­ar. Rist­an var ekki yf­ir­heyrður nema einu sinni, föstu­dag­inn 17. fe­brú­ar 2017 fannst þessi 37 ára gamli lögmaður á skrif­stofu sinni, fall­inn fyr­ir eig­in hendi.

Í bréfi sem Rist­an skildi eft­ir á skrif­borði sínu sagði hann frá öðrum og mun stærri skot­vopnala­ger í geymslu­hús­næði sem hann leigði í Kløfta. Þar upp­götvuðu steini lostn­ir fyrr­ver­andi sam­starfs­menn lög­manns­ins 400 skot­vopn til viðbót­ar, skamm­byss­ur, riffla, hríðskota­byss­ur og hagla­byss­ur. Stór hluti þess­ara skot­vopna átti sam­kvæmt skrám að hafa verið tek­inn úr um­ferð og stálstykki soðið inn í hlaup þeirra til að tryggja að þau yrðu ekki notuð frek­ar.

Rist­an reynd­ist þá, lík­lega í sam­starfi við óþekkta vitorðsmenn inn­an lög­regl­unn­ar, hafa falsað þenn­an um­búnað þannig, að stál­bit­inn var í raun ekki var­an­lega fest­ur held­ur virt­ist ein­göngu vera það. Við hús­leit hjá vopna­safn­ara í Hole fannst bréf frá Rist­an þar sem hann hafði lagt fram pönt­un á 23 slík­um bit­um.

Segja her­inn ekki vita um 1.600 byss­ur

Á blaðamanna­fundi sem lög­regl­an boðaði til 22. maí nú í ár greindi hún frá því að Bon­anza-aðgerðin hefði leitt til þess að hald hefði verið lagt á 2.300 skot­vopn í hönd­um rangra aðila. Einnig hefði aðgerðin af­hjúpað 67 manns, þar af marga starf­andi lög­reglu­menn, sem mis­farið höfðu með skot­vopn á sak­næm­an hátt. Af þess­um 67 störfuðu tveir á lög­reglu­stöðinni í Lillestrøm þar sem Rist­an heit­inn hafði starfs­stöð sína.

Norska lög­regl­an seg­ir her­inn ekki geta gert grein fyr­ir allt að 1.600 Colt-skamm­byss­um á borð við þá sem fannst heima hjá mann­in­um í Skien. Af þeim fjölda átti mörg hundruð að hafa verið fargað fyr­ir ára­tug, en ekki er vitað að svo hafi í raun verið gert.

Skotvopnum fargað í herbúðum í Evenes í september 2009. Bonanza-aðgerð …
Skot­vopn­um fargað í her­búðum í Evenes í sept­em­ber 2009. Bon­anza-aðgerð lög­regl­unn­ar hef­ur nú leitt í ljós að fjöldi skot­vopna hers­ins, sem skráð er að hafi verið fargað, geng­ur kaup­um og söl­um í und­ir­heim­un­um þar sem kaupa má 45 kalíbera Colt-skamm­byssu fyr­ir jafn­v­irði 95.600 ís­lenskra króna. Ljós­mynd/​Norski her­inn

„Við sjá­um að skot­vopn frá hern­um hafa kom­ist í hend­ur vopna­safn­ara og svo verið seld áfram frá þeim,“ seg­ir Skule Worp­vik yf­ir­lög­regluþjónn um Bon­anza-aðgerðina og bæt­ir því við að lög­regl­an hafi upp­götvað ákveðið sölu­mynst­ur frá jafn­vel lög­leg­um vopna­söfn­ur­um yfir til af­brota­manna.

Maður­inn frá Skien hlaut í fe­brú­ar á þessu ári tveggja og hálfs árs dóm fyr­ir nokk­ur af­brot. Hann afplán­ar nú gegn­um meðferðaráætl­un norska dóms­kerf­is­ins og fær með ýms­um skil­yrðum að vinna fulla vinnu.

„Ég hef reynt að verða edrú í fjölda ára. Ég þori ekki að brjóta af mér þegar ég er edrú, ég stæli ekki einu sinni súkkulaði úti í búð edrú. Ég þurfti alltaf að vera í vímu þegar ég var að fara í verk­efni sem hand­rukk­ari eða sækja fíkni­efni,“ seg­ir þessi tæp­lega fimm­tugi af­brotamaður frá.

Hann seg­ist enn frem­ur vita um fjölda skot­vopna frá hern­um sem séu til sölu í und­ir­heim­un­um, hvort tveggja Colt-skamm­byss­ur og AG-3-hríðskotariffla svo sem þann sem notaður var til að skjóta Arne Sig­ve Klung­land, varðstjóra í lög­regl­unni í Stavan­ger, til bana í NOKAS-rán­inu 5. apríl 2004 sem mbl.is rifjaði ít­ar­lega upp í vor.

Maður­inn kýs að greina ekki frá því hvar hann fékk Colt-skamm­byss­una, en seg­ir þó að vopn á borð við hana, og fjölda annarra sem horfið hafa frá her og lög­reglu í Nor­egi síðustu ára­tugi, megi kaupa í und­ir­heim­un­um fyr­ir litl­ar 7.000 norsk­ar krón­ur, 95.600 ís­lensk­ar.

VG (horfnu Colt-byss­urn­ar)

VG (Peter Rist­an af­hjúpaður)

Af­ten­posten

NRK

Dag­bla­det (byssa frá hern­um finnst í rúmi liðsmanns glæpa­geng­is (2017))

Raum­nes

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert