Stórsigur öfga-hægriflokks á Spáni

Stuðningsmenn Vox fagna úrslitum kosninganna fyrir utan höfuðstöðvar flokksins í …
Stuðningsmenn Vox fagna úrslitum kosninganna fyrir utan höfuðstöðvar flokksins í Madríd í kvöld. AFP

Öfga-hægriflokkurinn Vox bætti miklu fylgi við sig í þingkosningum á Spáni sem fóru fram í dag. Flokkurinn fékk 52 sæti og tvöfaldaði því rúmlega þau þingsæti sem hann fékk í kosningum í apríl en þau voru 24 talsins. Búið er að telja 99,2% atkvæða.

Sósíalistar fengu langflest þingsæti nú sem áður. Flokkurinn hlaut 120 þingsæti en það er þremur þingsætum minna en í síðustu kosningum.

Fjórðu þingkosningunum á Spáni á jafn mörgum árum lauk klukkan sjö að íslenskum tíma í dag en atkvæðagreiðslan fór fram í skugga yfirstandandi kreppu katalónskra aðskilnaðarsinna sem hafa ýtt undir stuðning við Vox.

Frá kjörstað í Barselóna í dag.
Frá kjörstað í Barselóna í dag. AFP

Vinstriflokkurinn Unidas Podemos tapaði átta sætum í kosningunum og fór því hvað verst út úr þeim. Flokkurinn hlaut 34 sæti í sinn hlut. Fólksflokkurinn sankaði að sér fleiri þingsætum en í síðustu kosningum eða 88 í heildina. Er það 22 sætum meira en í síðustu kosningum. Aðrir flokkar hlutu færri þingsæti. Sjá má niðurstöður kosninganna á vef El País.

Salvini og Le Pen hrósa sigri

Enginn augljós meirihluti er fyrir hendi eftir kosningarnar en kjörsókn var tæp 70%. Er það tæpum sex prósentum minna en í síðustu kosningum.

Forsætisráðherra Spánar, Pedro Sanchez, er sannspár maður en eftir að kjörstöðum var lokað spáði hann fyrir um úrslit kosninganna og sagði að sósíalistaflokkurinn sinn myndi vinna kosningarnar með 120 sæti af 350. 

Pedro Sanchez, núverandi forsætisráðherra Spánar.
Pedro Sanchez, núverandi forsætisráðherra Spánar. AFP

Í síðustu kosningum sem haldnar voru í apríl síðastliðnum tryggðu sósíalistar sér 123 þingsæti. Var það langt frá hreinum meirihluta svo Sanchez gat ekki myndað ríkisstjórn. Því neyddist hann til að boða til annarrar atkvæðagreiðslu. 

Í apríl bauð Vox í fyrsta sinn fram á spænska þinginu og voru niðurstöðurnar sögulegar, flokkurinn hafði unnið stærsta sigur öfga-hægri flokks á Spáni síðan Spánn snerist aftur til lýðræðis eftir andlát einræðisherrans Franciscos Franco árið 1975.

Marie Le Pen, leiðtogi franska öfga-hægri flokksins National Rally óskaði Vox til hamingju með niðurstöðurnar á samfélagsmiðlinum Twitter áður en úrslitin voru að fullu kunngjörð. Það gerði sömuleiðis leiðtogi öfga-hægri flokks Ítalíu, Matteo Salvini. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert