Trump „skítsama“ um Úkraínu

David Holmes, starfsmaður í sendiráði Bandaríkjanna í Úkraínu, varð vitni …
David Holmes, starfsmaður í sendiráði Bandaríkjanna í Úkraínu, varð vitni að símtali Trump við sendiherra Bandaríkjanna í Evrópusambandinu um málefni Úkraínu. AFP

David Holmes, sendiráðsstarfsmaður í bandaríska sendiráðinu í Úkraínu, segir Donald Trump Bandaríkjaforseta vera „skítsama“ um Úkraínu og að forsetinn hafi bara áhuga á því sem bæti pólitíska stöðu hans sjálfs.

Holmes er meðal þeirra sem hafa þurft að bera vitni fyrir fulltrúadeild Bandaríkjaþings vegna rannsóknar þingsins á embættisverkum forsetans. Rannsóknin er til komin vegna meintra tilrauna Trump til að þrýsta á úkraínsk yfirvöld að hefja rannsókn á Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðanda.

Guardian greinir frá og segir Trump hafa persónulega þrýst á úkraínsk yfirvöld að hefja rannsókn. Í vitnisburði sínum lýsti Holmes símtali milli Trump og Gordon Sondland sendiherra Bandaríkjanna hjá Evrópusambandinu sem hann varð vitni að þann 26. júlí. Þar hélt Trump áfram að þrýsta á um rannsóknina og segir Holmes sendiherrann hafa sagt forsetanum vera „skítsama“ um Úkraínu og að það eina sem hann hefði áhuga á væri það bætti pólitíska stöðu hans sjálfs.

Volodomír Zelenskí Úkraínuforseti og Donald Trump Bandaríkjaforseti í heimsókn þess …
Volodomír Zelenskí Úkraínuforseti og Donald Trump Bandaríkjaforseti í heimsókn þess fyrrnefnda í Hvíta húsinu. AFP

Sagði Zelenskí elska á honum afturendann

Símtalið átti sér stað daginn eftir að Trump ræddi við Volodomír Zelenskí, forseta Úkraínu. Í símtali þeirra bað Trump um „greiða“ og lagði til að úkraínsk yfirvöld tækju Biden og son hans Hunter Biden til rannsóknar.

Símtal Sondland og forsetans átti sér stað er sendiherrann var staddur ásamt tveimur bandarískum kollegum sínum á veitingastað í Kíev, höfuðborg Úkraínu. Að sögn Holmes talaði Trump svo hátt að Sondland þurfi að halda símanum fjarri eyra sínu um stund.

Sondland er auðugur hóteleigandi sem veitti milljón dollara styrk vegna innsetningarathafnar Trump í embætti. Fullvissaði hann forsetann í símtalinu um að Zelenskí „elskaði á honum afturendann“.

„Svo heyrði ég Trump forseta spyrja: „Ætlar hann að hefja rannsóknina?“ og Sondland sendiherra svaraði að „hann ætli að gera hana“,“ sagði Holmes í opnunarávarpi sínu fyrir þinginu sem lekið var í bandaríska fjölmiðla. Kvað Holmes Sondland því næst hafa bætt við að Zelenskí muni gera „allt sem hann biðji hann um.“

Að símtalinu loknu spurði Holmes Sondland út í skoðanir Trumps á Úkraínu og hvort það væri satt að Trump væri „skítsama“ um Úkraínu.

„Sondland var sammála því að forsetanum væri „skítsama um Úkraínu,“ sagði Holmes í vitnaleiðslunni. „Ég spurði hvers vegna og Sondland fullyrti þá að forsetinn hefði bara áhuga á „stóru málunum“. Ég sagði þá að það það væru líka „stór mál í gangi í Úkraínu, eins og stríðið við Rússa og þá svaraði Sondland að hann ætti við „stóru málin“ sem forsetinn hagnaðist á líkt og rannsóknin á Biden sem Giuliani var að ýta á um,“ rifjaði hann upp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert