Lögmenn fórnarlamba bandaríska barnaníðingsins Jeffrey Epstein gagnrýna Andrés Bretaprins harðlega og krefjast þess að hann veiti bandarísku alríkislögreglunni FBI lið við rannsókn á framferði Epsteins.
Frammistaða prinsins í viðtali, sem hann veitti í fréttaþættinum Newsnight í breska ríkissjónvarpinu, BBC, á laugardaginn, hefur víða verið gagnrýnd en þar svaraði hann fyrir ásakanir um að hafa átt kynmök við unglingsstúlku fyrir milligöngu Epsteins. Bandaríski lögfræðingurinn Gloria Allred, sem er verjandi fimm fórnarlamba Epsteins sagði í samtali við breska dagblaðið The Guardian að það eina rétta í stöðunni fyrir prinsinn væri að bjóða FBI og saksóknurum í New York, sem rannsaka málið, að yfirheyra sig.
„Ef Andrés prins hefur ekkert að fela og ef hann hefur ekki aðhafst neitt saknæmt; hvers vegna getur hann ekki deilt því sem hann veit um Epstein, samverkamenn hans og starfsfólk með FBI?“ spyr Allred.
Lögfræðingurinn Lisa Bloom, sem er verjandi annarra fimm fórnarlamba Epsteins, segir í samtali við The Guardian að viðtalið við prinsinn hefði valdið miklum vonbrigðum. „Honum er frjálst að neita ásökunum og verja sjálfan sig. En hvar var afsökun hans fyrir að vera svona nátengdur einum af mestu barnaníðingum sögunnar?“
Andrés prins, sem ber einnig titilinn hertoginn af Jórvík, er áttundi í erfðaröðinni að bresku krúnunni og hefur verið víða gagnrýndur fyrir tengsl sín við Epstein og áðurnefnt viðtal. Hann er verndari fjölda góðgerðarsamtaka í Bretlandi, meðal annars samtaka sem berjast gegn ofbeldi gegn börnum, og eru mörg þeirra nú sögð íhuga að slíta öll tengsl við prinsinn.