Háværar sprengingar heyrðust og eldveggur logaði við innganginn að tækniháskólanum í Hong Kong í morgun þar sem umsátursástand ríkti. Enn var mótmælt í borgríkinu í gærkvöldi og í nótt, hópur mótmælenda kom sér fyrir á svæði tækniháskólans og bar eld að aðalinngangi skólans til að bægja lögreglu frá.
Lögregla hefur nú skilgreint háskólasvæðið í Hong Kong sem óeirðasvæði. Hæstiréttur Hong Kong úrskurðaði í morgun að bann við að bera grímur á mótmælunum stæðist ekki stjórnarskrá, en slíkt bann var sett með neyðarlögum í byrjun síðasta mánaðar.
Mótmælin hafa nú staðið yfir í um sex mánuði, ofbeldi í tengslum við þau hefur farið stigvaxandi undanfarna viku og nú hefur nokkrum skólum verið lokað, götur og svæði verið girt af og hermenn fara um og hreinsa götur.
Í frétt AFP-fréttastofunnar segir að lögregla hafi skotið að mótmælendum í nótt, en engar fregnir hafi borist af því að einhver hafi særst eða fallið. Í gær tilkynntu lögregluyfirvöld í Hong Kong að þau hygðust beita skotvopnum gegn þeim mótmælendum sem beita hættulegum vopnum á borð við bensínsprengjur gegn þeim, en hingað til hefur lögregla beitt táragasi, vatni og gúmmíkúlum gegn mótmælendum.
Mótmælendur krefjast aukins lýðræðis fyrir Hong Kong og að þar verði haldnar frjálsar kosningar. Yfirvöld í Kína hafa staðfastlega hafnað þeirri kröfu og ítrekað varað við því að ekki verði unað við þennan óróa. Áhyggjur eru uppi um að hervaldi verði brátt beitt af fullum þunga.