Falsfréttir kynda undir óróa

Frá mótmælunum í Hong Kong.
Frá mótmælunum í Hong Kong. AFP

Morð, dulbúin sem sjálfsvíg. Fjöldamorð á neðanjarðarlestarstöð. Yfirvofandi árásir hryðjuverkamanna. Þetta eru dæmi um falsfréttir frá Hong Kong sem birst hafa á netinu undanfarið og orðið til þess að kynda undir óróa og óeirðir í borgríkinu.

Þetta er gert með því að ýja að atburðum, segja hálfan sannleikann og klippa myndskeið til þannig að einungis valið sjónarhorn er birt. Bæði mótmælendur, sem krefjast auk­ins lýðræðis fyr­ir Hong Kong og að þar verði haldn­ar frjáls­ar kosn­ing­ar, og stuðningsmenn kínverskra yfirvalda sem hafna þessari kröfu, hafa orðið uppvísir að því að búa til falsfréttir. 

Aðstandendur Kauyim Media, Facebook-síðu sem kannar staðreyndir að baki fréttaflutningi í Hong Kong, segja að falsfréttirnar kyndi undir hatur, hræðslu og ringulreið í Hong Kong. Langan tíma geti tekið að vinda ofan af því.

Djúpstætt vantraust á lögreglu og yfirvöldum verði til þess að mótmælendur trúi fréttum um ýmiss konar samsæriskenningar, þrátt fyrir að yfirvöld hafi ítrekað neitað slíku. Myndskeið, sem sýni lögreglumenn ráðast gegn mótmælendum, renni stoðum undir þessa trú. 

Kínverskir ríkisfjölmiðlar og her nettrölla hafa einnig farið mikinn í því sem bæði Facebook og Twitter kalla skipulagða upplýsingaherferð og birt vandlega klippt myndskeið og stílfærðar myndir sem eiga að sýna hversu mótmælendur eru ofbeldisfullir. Til dæmis færði AFP-fréttastofan sönnur á að myndskeið, sem átti að sýna gamla konu sem hótað var af mótmælendum fyrir að taka afstöðu með lögreglu, var falsað. Umræddu myndskeiði var dreift á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo af ungliðahreyfingu Kommúnistaflokksins.

„Ég býst í rauninni við því að allt sem ég les og sé sé fals, þar til ég veit hvaðan heimildin fyrir fréttinni kemur og ég hef séð hana á a.m.k. tveimur fjölmiðlum sem ég treysti,“ sagði Michael Wu, 27 ára gamall íbúi í Hong Kong, í samtali við AFP-fréttastofuna. „Fólk les einungis þær fréttir sem koma úr þeirra eigin hugmyndafræðilegu herbúðum og er tilbúið til að trúa öllu því sem passar við þeirra skoðanir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert