Talsmaður Hvíta hússins sakaði demókrata, sem stjórna rannsókn á meintum embættisbrotum Donald Trump forseta, um „sjúka“ og „tryllta“ löngun til að ná sér niðri á forsetanum.
„Helsta hvatning demókrata er greinilega hatur þeirra á Trump forseta og einlæg þrá þeirra til að ná sér niðri á honum eftir kosningarnar árið 2016,“ kom meðal annars fram í yfirlýsingu frá Stephanie Grisham, talsmanni Hvíta hússins.
„Bandaríska þjóðin á betra skilið,“ kom enn fremur fram í yfirlýsingunni.
Bandarískar þingnefndir rannsaka símtal Trump við Volodimír Zelenskí, forseta Úkraínu, fyrr á árinu þar sem Trump óskaði eftir því að Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, og sonur hans Hunter, yrðu rannsakaðir af úkraínskum yfirvöldum og hvort forsetinn hafi sett fram óviðeigandi pólitískar kröfur í garð Zelenskís.
Rannsóknin beinist að því hvort Trump hafi misbeitt valdi sínu sem forseti með því að setja rannsókn á Biden-feðgum sem skilyrði fyrir áframhaldandi hernaðaraðstoð Bandaríkjanna við Úkraínu.