Donald Trump Bandaríkjaforseti hæddist að Marie Yovanovitch, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, í viðtali í morgunþætti á Fox News þar sem hann segir að hún hafi neitað að hengja upp mynd af honum í bandaríska sendiráðinu í Úkraínu.
„Þessi sendiherra, sem allir segja að sé svo yndisleg, hún vildi ekki hengja upp mynd af mér í sendiráðinu,“ sagði Trump, og bætti við að Rudy Giuliani, einkalögfræðingur hans, hafi „ekki sagt góða hluti um hana“.
Yovanovitch bar vitni fyrir þinginu í síðustu viku ásamt ellefu öðrum vegna rannsóknar á embættisverkum forsetans vegna þrýstings sem hann er talinn hafa beitt úkraínsk stjórnvöld til að taka Joe Biden, fyrrverandi varaforseta og forsetaframbjóðanda, til rannsóknar. Hún sagði þinginu að hún hefði verið fórnarlamb óhróðursherferðar Giuliani, sem reyndi að gera hana tortryggilega á sama tíma og hann þrýsti á um að úkraínsk yfirvöld tækju Biden til rannsóknar.
Yovanovitch var látin víkja úr embætti sendiherra tveimur mánuðum áður en Trump átti umdeilt símtal sitt við forseta Úkraínu, þar sem hann hvatti til þess að Biden yrði tekinn til rannsóknar. „Hún sagði slæma hluti um mig, hún vildi ekki koma mér til varnar, og ég hef rétt á því að skipta um sendiherra,“ sagði Trump.
Hér má sjá samantekt Breska ríkisútvarpsins á vitnaleiðslunum sem fram fóru í vikunni og fer Anthony Zurcher, fréttaritari BBC í Norður-Ameríku, yfir það helsta: