Kjósendur hafa í dag flykkst á kjörstaði í Hong Kong vegna héraðskosningum, en kosningaþátttaka í slíkum kosningum er almennt dræm og þá vekja þær ekki mikla athygli. Í kjölfar mótmæla sem hafa staðið yfir síðan snemma í júní er áhugi íbúa á þessum kosningum hins vegar mjög mikill, enda eru þetta einu kosningarnar þar sem íbúar geta haft bein lýðræðisleg áhrif.
Kosið er um 452 fulltrúa í þeim 18 héruðum sem Hong Kong er skipt í, en í þingkosningum þegar leiðtogi sjálfstjórnarhéraðsins, er valinn eru það um 1.200 fulltrúar, sem valdir hafa verið beint og óbeint í gegnum valdakerfi héraðsins, sem fulltrúar hagsmunahópa, stjórnmálaflokka og trúarflokka. Eru það oftar en ekki stuðningsmenn Kína sem skipa þær stöður.
Kosningarnar í dag þykja því ákveðinn prófsteinn á vinsældir Carrie Lam, leiðtoga heimastjórnarinnar, sem styður aðgerðir kínverskra stjórnvalda á svæðinu. Að öllu jöfn hafa þessar kosningar verið tíðindalitlar og meirihluti frambjóðenda hefur verið hliðhollur kínverskum stjórnvöldum, en nú er breyting þar á. Andstæðingar kínverskra stjórnvalda vonast til þess að fá meirihluta atkvæða og hafa hvatt ákaft til kosningaþátttöku.
Mörg hundruð metra langar raðir hafa verið á kjörstöðum í morgun og eftir aðeins fimm tíma kosningar hafði þegar þriðjungur þeirra 4,13 milljóna manna, sem eru skráðir kjósendur, lokið við að kjósa. Er það meira en tvöföld kosningaþátttaka miðað við síðustu héraðskosningar árið 2015.
Þrátt fyrir mótmæli og óeirðir undanfarna mánuði hafa kosningarnar núna gengið friðsamlega fyrir sig, en leiðtogar mótmælanna hvöttu íbúa Hong Kong til að láta af óeirðum svo stjórnvöld í Kína hefðu ekki ástæðu til að fresta kosningunum. Lögregla hefur verið sýnileg við kjörstaði, en ekki hefur verið greint frá neinu ofbeldi í tengslum við kosningarnar.