Namibískur blaðamaður hefur verið rekinn frá ríkisfréttaveitunni þar í landi, eftir að hann tók þátt í umræðum um Samherjaskjölin í spjallþætti í sjónvarpi. Greint er frá þessu á fréttavef The Namibian.
Blaðamaðurinn, Vita Angula, starfaði sem lausapenni hjá Namibia Press Agency (NAMPA) sem stofnuð var með lögum af namibíska þinginu árið 1992.
Í samtali við The Namibian segist blaðamaðurinn undrandi á uppsögninni og hyggst hann mótmæla henni með liðsinni lögfræðinga. Angula segist reglulega fá boð um að mæta í umræðuþætti á sjónvarpsstöðinni One Africa og að mæta og ræða um Samherjaskjölin hafi ekki verið neitt frábrugðið fyrri skiptum.
„Ég reyndi að vera hlutlægur með skoðanir mínar á málinu,“ sagði Angula, sem segist þó hafa kallað hlutina sínu rétta nafni og talað um það framferði sem lýst er í skjölunum sem spillingu. Það gæti að hans mati hafa komið Hage Geingob forseta landsins illa, vegna tengsla hans við þá sem fjallað er um í Samherjaskjölunum.
Í uppsagnarbréfi sem vitnað er til í frétt The Namibian segir yfirboðari Angula að blaðamaðurinn hafi tekið þátt í umræðuþættinum og rætt þar „mjög umdeilt“ málefni án leyfis frá fréttastjóra eða honum sjálfum. „Ég hef líka varað þig nokkrum sinnum áður við því að taka þátt í slíkum opinberum umræðum vegna tengsla þinna við NAMPA,“ segir í uppsagnarbréfinu.