Dönsk stjórnvöld hafa hert eftirlit með Grænlandi og sett það efst á lista öryggismála, á undan mögulegri hryðjuverkaógn og netglæpum. Danska varnarmálaráðuneytið segir að þessar breyttu áherslur séu tilkomnar vegna aukins áhuga Bandaríkjanna á Grænlandi. Breska ríkisútvarpið, BBC greinir frá.
Í ágúst á þessu ári lýsti Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, yfir áhuga á að kaupa Grænland. Hann aflýsti ferð til Kaupmannahafnar, sem ráðgerð hafði verið í byrjun september, eftir að Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, neitaði að ræða tillöguna.
Undanfarið hafa bandarískir stjórnmála- og embættismenn aukið samskipti sín við Grænlendinga til muna. Markmiðið er að auka áhrif sín á Grænlandi með það fyrir augum að fá Grænlendinga til að segja skilið við Danmörku. Grænland er bundið Danmörku en getur hins vegar gert viðskiptasamninga við önnur lönd án aðkomu Dana. Til að mynda eru Kínverjar með samninga við grænlensk stjórnvöld um námuvinnslu.
Í ágúst sendu Danir í fyrsta skipti stórt eftirlitsskip, Absalon til Grænlands auk annars skips, Esbern Snare, sem er smærra í sniðum. Þetta eru stærstu herskip Dana.