„Pabbi og mamma hafa þungar áhyggjur af heilsu hennar. Við höfum engin samskipti fengið að eiga við hana,“ segir Bjarne Martinussen, bróðir Ingrid Martinussen, 32 ára gamals norsks háskólastúdents sem situr í gæsluvarðhaldi í Tókýó í Japan eftir að hún var handtekin þar 20. nóvember.
Bróðirinn, sem er með böggum hildar eins og aðrir í fjölskyldunni, segir málið snúast um pakka sem barst með póstinum og norska tollgæslan stöðvaði við athugun. Martinussen segir norska sendiráðið í Tókýó hafa haft samband við fjölskylduna 22. nóvember og greint frá stöðunni en upplýsingarnar sem þaðan fengust hafi verið takmarkaðar.
Málið virðist þó teygja anga sína lengra aftur og segir Stian Šmakić Sopp, fráfarandi formaður, ANSA, samtaka norskra námsmanna erlendis, að annar erlendur námsmaður í Tókýó, vinkona Martinussen, hafi sætt handtöku vegna sama máls 12. nóvember en verið sleppt samdægurs.
Sopp segist hafa komist á snoðir um handtöku Martinussen þegar systir hennar hafði samband við hann 26. nóvember og greindi frá því sem gerst hafði.
Sopp segir vinkonuna, sem áður var handtekin, hafa lýst yfirheyrsluaðferðum japönsku lögreglunnar og aðstæðum í fangelsinu sem verulega íþyngjandi og segir bróðir Martinussen þær lýsingar ekki hafa dregið úr áhyggjum fjölskyldunnar heima í Noregi.
„Þetta er skelfilegt, að heyra svona lagað veldur okkur þungum áhyggjum,“ segir hann.
Norska utanríkisráðuneytið staðfestir við norska fjölmiðla að því hafi borist tilkynning um norskan ríkisborgara í haldi japanskra yfirvalda. Námsmannasamtakaformaðurinn Sopp segist nú vinna að því að útvega lögmann til að gæta hagsmuna hinnar handteknu, sem stundar nám við Sophia-háskólann í Tókýó.
Gæsluvarðhald Martinussen var í gær framlengt um tíu daga.