„Þetta var mögnuð sýn á sunnudagsmorgni fyrir áhugamann um siglingar og sjóinn,“ segir Tor Andre Johannessen siglingaáhugamaður, búsettur í Haugesund í Noregi, í samtali við mbl.is í kvöld og segir frá því þegar hann horfði á eina af dýrustu snekkjum heims, Bravo Eugenia, sigla inn sundið sem aðskilur Haugesund við vesturströnd Noregs og Karmøy, eða Körmt eins og eyjan þar fyrir utan hét í Eddu Snorra Sturlusonar. „Þetta var eins og að horfa á tignarlegan svan innan um alla togarana,“ segir Johannessen fullur lotningar.
Bravo Eugenia er eign bandaríska milljarðamæringsins Jerry Jones, eiganda ruðningsliðsins Dallas Cowboys, og heiðraði hann eiginkonu sína, Eugenia Jones, með því að prýða lúxussnekkju sína nafni hennar. Samkvæmt tímaritinu Forbes er mastra jór þessi metinn á 250 milljónir dala, jafnvirði rúmlega 30 milljarða íslenskra króna, hefur 30 manns í áhöfn og rúmar auk þeirra 14 farþega.
Samkvæmt upplýsingum frá hafnaryfirvöldum í Haugesund áði Bravo Eugenia þar á leið sinni frá Rotterdam í Hollandi til Lundúna og hafði viðdvöl í um fimm klukkustundir í dag, frá klukkan 10 í morgun til 15 síðdegis.
Reyndar er þetta ekki fyrsta skiptið sem Bravo Eugenia heimsækir Noreg því snekkjan kom við í Sognefjorden í jómfrúarferð sinni milli jóla og nýárs í fyrra eins og norska ríkisútvarpið NRK greindi þá frá.
Til fróðleiks fylgir hér vísa þar sem Körmt, eða Karmøy, við vesturströnd Noregs ber á góma í Skáldskaparmálum Eddu Snorra Sturlusonar sem hefur kveðskapinn eftir Þórði Sjárekssyni. Í Ögvaldsnesi þar í eynni var forn konungsgarður þar sem Haraldur hárfagri hafði bú sitt og Hákon gamli lét reisa steinkirkju um 1250. Ögvaldsnes heitir eftir Ögvaldi konungi sem segir af í sögu Ólafs konungs Tryggvasonar en Ögvaldur sá dýrkaði og tilbað kú sína, eða blét hana eins og kallað var í sögunni og er gömul þátíð sagnarinnar að blóta: „[...] Ögvaldr var konungr ok hermaðr mikill, ok blét kú eina mest, ok hafði hann hana með sér, hvargi er hann fór, ok þótti honum þat heilnæmligt at drekka jafnan mjólk hennar.“ Vísa Þórðar:
Sveggja lét fyr Siggju
sólborðs Goti norðan;
gustr skaut Gylfa rastar
Glaumi suðr fyr Aumar;
en slóðgoti síðan
sæðings fyr skut bæði,
hestr óð lauks fyr Lista,
lagði Kǫrmt ok Agðir.