Áratugurinn sem er að líða undir lok er sá heitasti síðan mælingar hófust. Þá stefnir allt í að árið 2019 verði meðal þriggja heitustu ára sem mælst hafa. Þetta kemur fram í skýrslu sem birt var á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í dag.
25. ráðstefna aðildarríkja Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP25) var sett í gær og er meginverkefni að ljúka við regluverk um innleiðingu Parísarsamningsins, en þar ber hæst reglur varðandi 6. grein Parísarsamningsins um samvinnu ríkja um losunarmarkmið.
Þá verða málefni hafsins einnig ofarlega á blaði.
Til stóð að halda ráðstefnuna í Santíago í Síle, en vegna viðvarandi mótmæla í borginni sáu stjórnvöld sig knúin til þess að hætta við að halda ráðstefnuna.