Greta Thunberg þurfti lögreglufylgd í Madríd

Hópur fólks umkringdi Gretu Thunberg við komu hennar til Madríd …
Hópur fólks umkringdi Gretu Thunberg við komu hennar til Madríd til að reyna ná tali eða myndum af henni. Lögregluþjónar fylgdu henni í skjól. AFP

Sænski loftlagsaðgerðasinninn Greta Thunberg þurfti lögreglufylgd þegar hún mætti á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í spænsku höfuðborginni Madríd í dag. Fjölmiðlar, ljósmyndarar og aðrir hópuðust í kringum hana og var ásóknin svo mikil að nokkrir lögreglumenn þurftu að fylgja henni hvert fótmál.

BBC greinir frá. 

Unga fólkið lætur ekki þagga niður í sér

Thunberg tekur þátt í loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem nefnist COP25. Á blaðamannafundi sagði hún að ungt fólk væri komið til Madríd til að boða breytingar og að það myndi ekki láta þagga niður í sér. Hún sagðist einnig vonast til þess að ráðstefnan myndi skila „einhverju áþreifanlegu“.

Fylgst hefur verið náið með ferðalagi Gretu til Madríd en hún lagði mikið á sig til að komast þangað án þess að notast við flugsamgöngur. Eftir þriggja vikna siglingu yfir Atlantshafið kom hún til hafnar í Lissabon í Portúgal í vikunni þaðan sem hún ferðaðist til Madríd.

Þar var beðið eftir henni með mikilli eftirvæntingu og þegar hún loksins kom varð hún fljótlega umkringd af múg og margmenni. Mörgum þótti ágangurinn hreinlega hættulegur og mátti heyra viðstadda hrópa á þá sem stóðu henni næst að „láta hana í friði.“ Á endanum fékk Greta lögreglufylgd í öruggt skjól.

„Fólk vill ekki breytingar og margir eru hræddir við breytingar. Ungt fólk er að kalla eftir breytingum og þess vegna er verið að reyna þagga niður í okkur og það sannar að raddir okkar hafa áhrif,“ sagði Greta við fjölmiðla við komuna á ráðstefnuna.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert