Ákæra Trump fyrir að misnota vald sitt

Jerry Nadler á fundinum í dag.
Jerry Nadler á fundinum í dag. AFP

Demókratar á Bandaríkjaþingi hafa formlega svipt hulunni af ákæru á hendur Donald Trump Bandaríkjaforseta til embættismissis.

Ákæran er í tveimur liðum, en forsetinn er sakaður um að misnota vald sitt og hindra framgang rannsóknar þingsins á því hvernig hann beitti sér til að setja þrýsting á stjórnvöld í Úkraínu í þeim tilgangi að ráðast á pólitískan andstæðing í komandi forsetakosningum. 

Búist er við að fulltrúadeild Bandaríkjaþings muni greiða atkvæði um málið í næstu viku. Verði ákæran samþykkt verður Trump þriðji forsetinn í sögu Bandaríkjanna sem verður ákærður fyrir brot í embætti og þarf að svara til saka fyrir öldungadeild þingsins.

Demókratar boðuðu til blaðamannafundar í dag þar sem þeir greindu …
Demókratar boðuðu til blaðamannafundar í dag þar sem þeir greindu frá ákvörðun sinni. AFP

Jerry Nadler, formaður dómsmálanefndar fulltrúadeildarinnar, sagði að forsetinn nyti trausts almennings. „Þegar hann bregst því trausti og setur sjálfan sig framar þjóðinni setur hann stjórnarskrá landsins í voða, sem og lýðræðið, og hann stefnir þjóðaröryggi í hættu,“ sagði Nadler. 

Hann sagði að tilraunir Trumps til að fá erlent ríki til að skipta sér af forsetakosningunum sem fara fram á næsta ári ógnuðu bæði trúverðugleika kosninganna og öryggi þjóðarinnar. Nadler sagði að það væri þörf á að stíga þetta skref í dag. 

Trump hefur aftur á móti neitað að hafa gert nokkuð rangt.

Trump neitar sök .
Trump neitar sök . AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert