Stærsti sigur Íhaldsflokksins í 32 ár

Forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, Boris Johnson, hefur ástæðu til …
Forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, Boris Johnson, hefur ástæðu til að fagna í dag. AFP

Allt stefnir í stærsta kosningasigur Íhaldsflokksins í 32 ár eða frá kosningasigri flokksins, með Margaret Thatcher í fararbroddi, árið 1987. Ósigur Verkamannaflokksins er aftur á móti sá versti frá því árið 1935.

Boris Johnson snýr aftur í Downing-stræti með góðan meirihluta á bak við sig eftir þingkosningar í Bretlandi í gær. Þegar nánast öll atkvæði hafa verið talin er Íhaldsflokkurinn með 78 þingsæta meirihluta á breska þinginu.

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, sendi Johnson hamingjuóskir með kosningasigurinn í dag og segir að löndin tvö séu á öruggri leið með að ná miklum og góðum viðskiptasamningum sín á milli eftir að Bretar ganga úr Evrópusambandinu.

En formaður Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, hefur enga ástæðu til að …
En formaður Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, hefur enga ástæðu til að gleðjast. AFP

Johnson segir að kosningaúrslitin veiti honum umboð til að ljúka Brexit og fara með Bretland út úr ESB í næsta mánuði.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, segir að nóttin hafi verið full af vonbrigðum fyrir flokkinn og að hann myndi ekki leiða flokkinn í fleiri kosningabaráttum. 

Samkvæmt spá BBC fær Íhaldsflokkurinn 364 þingmenn kjörna, Verkamannaflokkurinn 203, Skoski þjóðarflokkurinn 45, Frjálslyndir demókratar 12, velski þjóðarflokk­ur­inn Plaid Cymru 4 og Græn­ingj­ar 1. Brexit-flokkurinn fær engan mann kjörinn á þing.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka