Vilja vísa sendiherra Kína úr landi

Gui Congyou, sendiherra Kína í Svíþjóð.
Gui Congyou, sendiherra Kína í Svíþjóð. Ljósmynd/Sendiráð Kína í Svíþjóð

Framtíð sendiherra Kínverja í Svíþjóð er í lausu lofti eftir að þingmenn Kristilegra demókrata og Vinstriflokksins, tveggja stjórnarandstöðuflokka, kölluðu eftir því honum yrði vísað úr landi og hann jafnframt lýstur „ósæskileg manneskja“.

Sendiherrann, Gyi Congyou, þykir hafa brotið gegn Vínarsáttmálanum með afskiptum sínum af sænskum innanríkismálum. Sænska ríkisútvarpið greinir frá því að Congyou hafi frá því hann tók við embætti árið 2017 verið kallaður á fund sænska utanríkisráðuneytisins minnst 40 sinnum, að því er virðist til að ræða framgöngu hans í starfi.

Hann er ósáttur við fréttaflutning sænskra fjölmiðla af málefnum Kínastjórnar, einkum mannréttindabrotum þeirra, en steininn tók úr er hann hótaði sænskum stjórnmálamönnum á dögunum að það hefði „afleiðingar“ ákvæðu leiðtogar ríkisstjórnarinnar að vera viðstaddir veitingu sænsku útgáfu PEN-verðlaunanna, þar sem hinn sænsk-kínverski rithöfundur Gui Minhai var sæmdur viðurkenningu. Minhai situr í fangelsi í Kína vegna „ólöglegrar viðskiptastarfsemi“ en í henni fólst að gefa út bækur sem voru kínverska kommúnistaflokknum ekki þóknanlegar.

Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, segir gleðiefni að þingheimur standi sameinaður með stefnu stjórnvalda í málinu. Framferði sendiherrans sé óásættanlegt og málflutningur hans alvarlegur. Hún vill þó ekki lýsa því yfir að svo stöddu að vísa beri sendiherranum úr landi. Mikilvægt sé að fara hægt í sakirnar og halda samskiptum við Kínverja góðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka