Gröf „heila Himmlers“ opnuð

Reinhard Heydrich, nasistaforingi í seinni heimstyrjöldinni. Adolf Hitler kallaði hann …
Reinhard Heydrich, nasistaforingi í seinni heimstyrjöldinni. Adolf Hitler kallaði hann „manninn með stálhjartað“ og hann gekk einnig undir nöfnunum „heili Himmlers“ og slátrarinn. Ljósmynd/Wikipedia

Gröf Reinhard Heydrich, sem var háttsettur nasistaforingi í seinni heimstyrjöldinni, hefur verið opnuð. Lögreglan í Berlín rannsakar hver kann að hafa verið að verki. 

Starfsmaður í Invalidenfriedhof-kirkjugarðinum í Berlín kom að gröfinni á fimmtudag og hafði hún þá verið opnuð. Engin bein voru fjarlægð að sögn lögreglu. 

Heydrich hefur verið lýst sem einu helsta illmenni mannkynssögunnar. Hann var náinn samverkamaður Adolfs Hitler og Hitler kallaði hann manninn með stálhjartað. Auk þess að vera herforingi í SS-sveitunum var hann einnig hæstráðandi í Gestapo, Kripo og Interpol og lagði líka drög að útrýmingu á gyðingum, helförinni, í nánu samstarfi við Heinrich Himmler. Heydrich hlaut einnig viðurnefnið „heili Himmlers“. 

Gröf Heydrich er ekki merkt, frekar en grafir annarra háttsettra nasistaforingja, en um það var sammælst eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Sá hinn sami sem opnaði gröfina virðist hins vegar hafa vitað hver hvílir þar. 

Heydrich var myrtur af Tékkum í Prag í maí 1942 sem réðust á eðalvagn Heydrich þegar hann var á ferð. Hann lést af sárum sínum nokkrum dögum seinna.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert