„Ekki einu sinni hamfarir eins og þessar nægja til að gripið sé til pólitískra aðgerða. Hvernig er það mögulegt?“
Að þessu spyr Greta Thungberg loftslagsaðgerðasinni í færslu á Facebook-síðu sinni. Hamfarirnar sem um ræðir eru miklir gróður- og kjarreldar sem geisa í Ástralíu. Alls hafa níu látið lífið og tæplega 800 heimili eyðilagst það sem af er vegna eldanna. Ástandið er verst í fylkinu New South Wales (NSW) en þar er Sydney stærsta borgin.
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, hefur beðist afsökunar á því að hafa valdið „miklum kvíða“ með því að fara í frí til Havaí á meðan gróðureldar geisa heima fyrir. Hann stytti fjölskyldufríið og er nú kominn heim.
Greta tekur undir raddir sem gagnrýna forsætisráðherrann fyrir úrræðaleysi gagnvart eldunum og einnig fyrir aðgerðaleysi vegna loftslagsbreytinga. Morrison viðurkenndi að loftslagsbreytingar hefðu áhrif á hækkandi hitastig í landinu en sagði breytingarnar ekki hafa bein áhrif á skógareldana.
Greta segir að enn og aftur séu þau mistök gerð að líta framhjá tengslum loftslagsvárinnar og ofsaveðra og náttúruhamfara líkt og eru að eiga sér stað í Ástralíu.
„Það þarf að breytast. Núna,“ segir manneskja ársins hjá Time.