„Hvernig er það mögulegt?“

Greta Thunberg segir að enn og aftur eru þau mistök …
Greta Thunberg segir að enn og aftur eru þau mistök gerð að líta framhjá tengslum loftslagsvánnar og ofsaveðrum og náttúruhamförum líkt og eru að eiga sér stað í Ástralíu. AFP

„Ekki einu sinni hamfarir eins og þessar nægja til að gripið sé til pólitískra aðgerða. Hvernig er það mögulegt?“ 

Að þessu spyr Greta Thungberg loftslagsaðgerðasinni í færslu á Facebook-síðu sinni. Hamfarirnar sem um ræðir eru miklir gróður- og kjarreldar sem geisa í Ástralíu. Alls hafa níu látið lífið og tæp­lega 800 heim­ili eyðilagst það sem af er vegna eld­anna. Ástandið er verst í fylk­inu New South Wales (NSW) en þar er Syd­ney stærsta borg­in.

Scott Morri­son, for­sæt­is­ráðherra Ástr­al­íu, hef­ur beðist af­sök­un­ar á því að hafa valdið „mikl­um kvíða“ með því að fara í frí til Havaí á meðan gróðureld­ar geisa heima fyr­ir. Hann stytti fjölskyldufríið og er nú kominn heim.   

Greta tekur undir raddir sem gagnrýna for­sæt­is­ráðherr­ann fyrir úrræðal­eysi gagn­vart eld­un­um og einnig fyr­ir aðgerðaleysi vegna lofts­lags­breyt­inga. Morrison viður­kenndi að lofts­lags­breyt­ing­ar hefðu áhrif á hækk­andi hita­stig í land­inu en sagði breyt­ing­arn­ar ekki hafa bein áhrif á skógar­eld­ana.

Greta segir að enn og aftur séu þau mistök gerð að líta framhjá tengslum loftslagsvárinnar og ofsaveðra og náttúruhamfara líkt og eru að eiga sér stað í Ástralíu. 

„Það þarf að breytast. Núna,“ segir manneskja ársins hjá Time.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert