Bandaríski forsetaframbjóðandinn Michael Bloomberg viðurkenndi í gær að fangar hafi unnið við að hringja kosningasímtöl fyrir kosningaherferð hans. Bloomberg segir þó að hann hafi ekki verið meðvitaður um það og að hann hafi einungis komist á snoðir um fyrirkomulagið þegar blaðamaður fletti hulunni af því. Sky News greina frá þessu.
Bloomberg er einn af fremstu frambjóðendum Demókrata sem berjast nú um að verða tilnefndir til forseta fyrir hönd flokksins.
Fréttasíðan The Intercept uppgötvaði fyrst miðla að fangar hringdu kosningasímtöl fyrir kosningaherferð Bloombergs. Fangarnir unnu fyrir þriðja aðila, fyrirtækið ProCom sem er staðsett í Oklahoma í Texas ríki.
Á aðfangadag gaf Bloomberg út að hann hafi fyrst heyrt af fyrirkomulaginu þegar blaðamaður Intercept hafði samband við hann vegna málsins. Nú hefur herferð hans hætt öllum viðskiptum við ProCom.
Fangarnir sem hringdu kosningasímtölin eru fangar í kvennafangelsinu Dr. Eddie Warrior Correctional fangelsinu, lágmarks öryggisfangelsi þar sem um 900 konur dvelja hverju sinni.
Þó ProCom greiddi fangelsinu lágmarkslaun, 7,25 dali á klukkustund, þá hefur fangelsið einungis heimild til að greiða föngum 20 dali á mánuði.
Í kosningasímtölum sögðu fangarnir að þeir hringdu fyrir hönd kosningaherferðar Bloombergs en greindu ekki frá því að þeir hringdu úr fangelsi.