„Heill á húfi, þökk sé Allah“

Frá vettvangi slyssins.
Frá vettvangi slyssins. AFP

Þekktur athafnamaður í Kasakstan var einn þeirra sem komst lífs af úr flugslysinu þar í landi í nótt en tólf eru látnir og tíu alvarlega slasaðir.

Flugvélin klofnaði í tvo hluta þegar hún brotlenti skömmu eftir flugtak. Flestir farþeganna sem fórust voru í fremri hlutanum. Alls voru 95 farþegar í vél­inni og fimm manna áhöfn.

AFP

Athafnamaðurinn Aslan Nazaraliyev greindi frá því á Facebook að hann hefði komist lífs af og sýndi í leiðinni sætið sitt á ljósmynd af flaki vélarinnar, sem var alveg við staðinn þar sem hún klofnaði í tvennt.

„Ég er heill á húfi, þökk sé Allah,“ skrifaði Nazalaliyev.

Forseti Kasakstan, Kassym-Jomart Tokayev, hét því að veita fjölskyldum fórnarlambanna fjárhagsaðstoð og tísti á Twitter að þeir sem beri ábyrgð á slysinu verði látnir svara til saka. 

Þjóðarsorg verður í Kasakstan á morgun vegna slyssins. Rannsóknarnefnd hefur einnig verið sett á laggirnar til að komast að því hvað fór úrskeiðis.

Flugvélin var smíðuð árið 1996 og fór í gegnum öryggispróf í maí síðastliðnum.

AFP

Stél vélarinnar snerti flugbrautina tvívegis í flugtakinu. „Annað hvort voru þetta mistök af hálfu flugmannsins eða tæknilegar ástæður voru að baki,“ sagði aðstoðarforsætisráðherrann Roman Sklyar.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert