Tveir af bestu einkareknu skólum Englands neituðu á dögunum tilboði prófessors um fé að verðmæti einnar milljónar punda, eða því sem nemur tæpum 160 milljónum króna. BBC greinir frá þessu.
Prófessorinn, hinn 96 ára gamli Bryan Thwaites, vildi að féð færi í styrki sem rynnu til hvítra drengja sem væru illa settir fjárhagslega.
Skólarnir hafa nú varið ákvörðun sína um að hafna styrkjunum með þeim rökum að skólarnir vilji ekki að nemendum sé mismunað á grundvelli kynþáttar.
Í kjölfar þess að fjárhagsaðstoð Thwaites var hafnað hefur hann leitað að öðrum menntastofnunum sem kynnu að hafa áhuga á þessum miklu fjármunum.
Thawaites gekk í báða einkaskólana sem hann hafði hugsað sér að láta eftir styrkina, Winchester háskóla og Dulwich háskóla. Hann kom frá fátækri fjölskyldu og hefðu foreldrar hans ekki átt fyrir skólagjöldum Thawites og bróður hans nema fyrir sakir styrkja.
Thawaites segir að af þessum sökum vilji hann geta hjálpað hvítum strákum sem hafa alist upp við erfiðar aðstæður þar sem þeir standi sig verr í skólum en strákar af öðrum kynþáttum sem hafa alist upp við erfiðar aðstæður.