Óttuðust að Jeltsín myndi drekka sig í hel

Boris Jeltsín, þáverandi Rússlandsforseti, með vodkastaup á lofti í maí …
Boris Jeltsín, þáverandi Rússlandsforseti, með vodkastaup á lofti í maí árið 1995. Bill Clinton þáverandi Bandaríkjaforseti sést með honum á myndinni. AFP

Nýbirt skjöl frá bresku utanríkisþjónustunni sýna að bresk yfirvöld höfðu töluverðar áhyggjur af því að Boris Jeltsín Rússlandsforseti myndi drekka sig til ólífis í embætti árið 1995, en á því ári fékk hann tvö hjartaáföll og drakk stíft.

Sérstakar áætlanir voru til staðar um hvernig Bretar skyldu bregðast við ef Jeltsín myndi látast skyndilega í embætti, enda var fyrirsjáanlegt að andlát Rússlandsforseta myndi valda mikilli ringulreið í rússneskri pólitík. Jeltsín lést þó ekki fyrr en árið 2007, en hann lét af embætti Rússlandsforseta á gamlársdag fyrir 20 árum síðan og gerði Vladimír Pútín að arftaka sínum.

Í skjölum bresku utanríkisþjónustunnar, sem gerð voru aðgengileg í dag af breska þjóðskjalasafninu, kemur fram að Andrew Wood sendiherra Breta í Moskvu hafi gert drykkju Jeltsíns að sérstöku umtalsefni í formlegum skilaboðum til yfirvalda í lok október árið 1995, en þann 26. október það ár fékk Jeltsín sitt annað hjartaáfall á fjórum mánuðum. 

„Neytti víns og bjórs af græðgi“

Wood lýsti því að Jeltsín hefði drukkið ótæpilega á fundi sínum með Bill Clinton Bandaríkjaforseta í Hyde Park í New York-ríki nokkrum dögum fyrr.

„Hann neytti víns og bjórs af græðgi í Hyde Park og harmaði að ekki væri boðið upp á koníak,“ ritaði sendiherrann breski og bætti því við að einn af aðstoðarmönnum Jeltsíns hefði tekið af honum kampavínsglas þegar honum fannst nóg komið.

Wood sagði í skilaboðum sínum, 27. október 1995, að ef Jeltsín myndi láta lífið í embætti myndi skapast „fordæmalaus pólitísk ringulreið“ í Rússlandi.

Jeltsín braggaðist þó eftir hjartaáfallið og ekki kom til þess að Bretar þyrftu að grípa til þess ráðs að senda frá sér þær yfirlýsingar sem skrifaðar voru í utanríkisþjónustunni á þessum tíma, en búið var að hripa niður drög að opinberum minningarorðum um forsetann, samúðarkveðju til eiginkonu hans og kveðju til eftirmanns hans í embætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert