Víg Soleimanis „stríðsaðgerð“

Æðstiklerkur Írans, Ali Khamenei, ræðir við fjölmiðla í gær við …
Æðstiklerkur Írans, Ali Khamenei, ræðir við fjölmiðla í gær við hliðina á mynd af hershöfðingjanum Qasem Soleimani sem féll í drónaárás Bandaríkjamanna. AFP

Stjórnvöld í Íran segja að víg Bandaríkjamanna á íranska hershöfðingjanum Qasems Soleimani hafi verið stríðsaðgerð af hálfu Bandaríkjamanna. Þetta er haft eftir Majid Takht Ravanchi, sendiherra Írans hjá Sameinuðu þjóðunum, í frétt AFP.

Sendiherrann lét orðin falla í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CNN í gærkvöldi. Sagði hann að Bandaríkin hefðu með drónaárás á bílalest Soleimanis í Bagdad, höfuðborg Íraks, aðfaranótt föstudagsins hafið stríð og framið hryðjuverk.

„Hvernig er hægt að gera ráð fyrir að Íran bregðist við? Við getum ekki bara þagað. Við verðum að bregðast við og við munum bregðast við,“ sagði hann enn fremur. Írönsk stjórnvöld gætu ekki lokað augunum fyrir því sem hefði gerst.

Hernaðaraðgerð svarað með hernaðaraðgerð

„Sannarlega verður um hefnd að ræða, grimmilega hefnd,“ sagði sendiherrann. „Svarið við hernaðaraðgerð er hernaðaraðgerð. Af hálfu hvers, hvenær og hvar? Það kemur í ljós í framtíðinni,“ sagði Ravanchi í lok viðtalsins við sjónvarpsstöðina.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fullyrti í gær að Soleimani hefði verið að skipuleggja fjölda árása á Bandaríkjamenn. Sagði hann víg hans vera ætlað að koma í veg fyrir stríð. Lagði forsetinn enn fremur áherslu á að hann vildi ekki stríð.

Soleimani verður borinn til grafar í heimabæ sínum Kerman í Íran á þriðjudaginn. Gert er ráð fyrir að lík hans verði flutt til Írans í dag. Þriggja daga þjóðarsorg var lýst yfir í kjölfar vígs hans.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ávarpar stuðningsmenn sína í Flórídaríki í …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ávarpar stuðningsmenn sína í Flórídaríki í gær. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert