Lögregla skaut og særði mann sem veifaði hnífi og ópaði „Guð er máttugastur“ (arab. Allahu akbar) í frönsku borginni Metz í dag, tveimur dögum eftir að annar maður gerði slíkt hið sama í úthverfi Parísar og drap þar einn og særði tvo áður en hann var sjálfur skotinn til bana.
Maðurinn sem lögregla skaut í dag er ekki sagður í lífshættu, en hann var færður í járn eftir að lögregla skaut hann og yfirbugaði. Samkvæmt saksóknara í Metz var maðurinn þekktur öfgamaður og einnig með andlega bresti, persónuleikaröskun nánar tiltekið.
AFP-fréttastofan hefur eftir heimildarmanni úr röðum lögreglunnar að maðurinn standi á þrítugu, hann hafi hótað lögreglumönnum og sé gefið að sök að hafa reynt að myrða lögreglumenn.
Maðurinn sem var drepinn af lögreglu í almenningsgarði í úthverfi Parísar á föstudag er einnig sagður hafa hrópað „Guð er máttugastur“ áður en hann lét til skarar skríða.
Það mál er rannsakað sem hryðjuverk og saksóknarinn í Metz sem AFP ræðir við segir að einnig sé til skoðunar að láta sérstaka hryðjuverkarannsakendur taka yfir rannsókn málsins þar í borg.
Árásarmaðurinn í París átti einnig við andlega erfiðleika að stríða en þó þykir rannsakendum ljóst að hann hafi skipulagt verknað sinn vel. Maðurinn var 22 ára gamall, hafði snúist til íslamstrúar og í bakpoka sem maðurinn var með mátti finna ritverk eftir íhaldssama salafista og bréf sem mun hafa verið eins konar erfðaskrá árásarmannsins.
Saksóknari í París lýsir því að árásarmaðurinn þar hafi þyrmt lífi fyrsta mannsins sem hann nálgaðist með hnífinn á lofti, eftir að maðurinn, sem var múslimi, byrjaði að þylja bæn á arabísku.
Árásarmaðurinn réðst síðan að hjónum sem voru á göngu í garðinum og drap 56 ára gamlan karlmann með stungu í hjartað og særði eiginkonu hans. Því næst réðst hann að þrítugri konu sem var að skokka og stakk hana í bakið, áður en lögregla kom á staðinn og skaut hann til bana.