Bandaríkjamenn eru reiðubúnir að ráðast á 52 skotmörk í Íran með skömmum fyrirvara komi til þess að írönsk stjórnvöld ráðist gegn bandarískum hagsmunum í kjölfar þess að Bandaríkjaher felldi Qasem Soleimani, háttsettan íranskan hershöfðingja, aðfaranótt föstudagsins. Þetta sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, í gær.
Talan 52 vísar til þess fjölda bandarískra gísla sem teknir voru til fanga í bandaríska sendiráðinu í Teheran, höfuðborg Írans, árið 1979 þegar keisarastjórn landsins var steypt af stóli og klerkastjórnin tók við völdum. Trump sagði að ýmis þeirra skotmarka sem væru í sigti Bandaríkjamanna hefðu mikla þýðingu fyrir Íran og íranska menningu.
Forsetinn sagði að Bandaríkin myndu bregðast mjög hratt við ef þess gerðist þörf og að um yrði að ræða stærri árásir en Íranar hefðu nokkurn tímann orðið fyrir. Til þess myndu Bandaríkjamenn nota nýjustu hernaðartækni sína án þess að hika. Sagði Trump að bandarísk stjórnvöld vildu að Íranar hættu að ógna bandarískum hagsmunum.
Trump lét ummælin falla í kjölfar þess að vígasamtök hlynnt Írönum vöruðu íraska hermenn við því að vera nærri bandarískum herstöðvum í Írak og sögðu flugskeytum beint að stöðvum Bandaríkjamanna. Tveimur flugskeytum var í gær skotið að bandarískri herstöð í Írak. Íranar hafa hótað grimmilegum hefndum í kjölfar vígs Soleimanis.