Tugir tróðust til bana við jarðarför Soleimani

Lokastig jarðarfarar Soleimani fer fram í heimabæ hans Kerman í …
Lokastig jarðarfarar Soleimani fer fram í heimabæ hans Kerman í dag. Þar hafa 35 hið minnsta látist í miklum troðningi. AFP

Að minnsta kosti 35 manns létust í dag í miklum troðningi sem varð í íranska bænum Kerman þegar Qasem Soleimani, herforinginn valdamikli sem Bandaríkjamenn drápu aðfaranótt föstudags, var borinn til grafar. Samkvæmt frétt íranska ríkissjónvarpsins slösuðust 48 til viðbótar við þá 35 sem sagðir eru látnir.

Í frétt AP-fréttastofunnar af málinu segir að mikill troðningur hafi átt sér stað þegar lík Soleimani var borið í gegnum bæinn, sem er heimabær herforingjans sáluga. Myndbönd sem birst hafa á samfélagsmiðlum frá jarðarförinni sýna þennan mikla troðning og afleiðingar hans.

Myndskeiðið sem sjá mér hér að neðan er eitt þeirra og skal varað við því að það er fremur óhuggulegt áhorfs.

Lík Soleimani hefur farið víða undanfarna daga og herforinginn hylltur sem píslarvottur, fyrst á föstudag í Bagdað, höfuðborg Íraks, þar sem hann var veginn, og síðan í helstu borgum Írans yfir helgina.

Talið er að yfir milljón syrgjendur hafi komið út á götur Teheran, höfuðborgar Írans, í gær til þess að hylla minningu hans, en það er mat fréttamanna AP sem voru á staðnum.

Lokastig jarðarfararinnar er í dag, í Kerman, þar sem hið minnsta 35 eru látnir vegna troðnings, sem áður segir.

Frá Kerman í dag.
Frá Kerman í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert