Vígs Soleimani enn óhefnt

Æðstiklerkur Írans, Ali Khamenei, ávarpaði þjóð sína í morgun.
Æðstiklerkur Írans, Ali Khamenei, ávarpaði þjóð sína í morgun. AFP

Íranar segja að 80 bandarískir hermenn hafi látist í eldflaugaárásum á Írak í nótt. Þetta kom fram í frétt í ríkissjónvarpi Írans. Í fréttinni er vísað í heimildir úr röðum byltingarvarða Írans. Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, hótar grimmilegum hefndum verði gerðar árásir á Ísrael. 

Íranski herinn skaut 22 eldflaugum á herstöðvar í Írak þar sem bandarískir hermenn eru sem og hermenn frá bandalagsríkjum þeirra. 

Í frétt á vef íranska ríkissjónvarpsins kemur fram að ómönnuð ökutæki, þyrlur og fleiri hernaðartæki hafi skemmst í árásunum. Búið sé að staðsetja yfir 140 skotmörk sem tengjast Bandaríkjaher og bandamönnum þeirra á svæðinu og gerðar verði árásir á þau ef Bandaríkin gera önnur mistök, að því er segir í fréttinni. 

Árásirnar í nótt eru fyrstu aðgerðir Írana sem búið var að boða í hefndarskyni fyrir drápið á Qasem Soleimani í Írak í síðustu viku. 

Netanyahu segir að hver sá sem ráðist á Ísrael geti átt von á grimmilegum hefndaraðgerðum en hann lýsti Soleimani sem yfirmanni hryðjuverkasamtaka nýverið. 

Samkvæmt tilkynningu frá Íraksher varð ekkert mannfall meðal þeirra hermanna og það sama á við um franska hermenn. Utanríkisráðherra Bretlands, DominicRaab, hefur aftur á móti ekki gefið út slíka yfirlýsingu aðeins að hann hafi áhyggjur af mannfalli. Hann fordæmdi árásina í morgun en breskir hermenn voru í herstöðinni al-Asad sem 17 eldflaugum var skotið á. Alls var 22 eldflaugum skotið á tvo staði í Írak. 

AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur boðað blaðamannafund en hann heimsótti al-Asad ásamt eiginkonu sinni, Melaniu Trump, í desember 2018.

Samkvæmt upplýsingum frá norska hernum fengu hermenn úr hernaðarbandalagi nokkurra ríkja viðvörun um fyrirhugaða árás í gegnum upplýsingar frá leyniþjónustum.  

Byltingarvörðurinn heyrir undir æðsta leiðtoga Írans, Ali Khamenei erkiklerk. Khamenei segir að Bandaríkin hafi verið slegin utan undir með árásinni en að hefndaraðgerðum væri ekki lokið. Mikilvægt atvik átti sér stað. Spurningin um hefnd er annar hlutur, sagði Khamenei  í ávarpi til þjóðarinnar sem var sent beint út í ríkissjónvarpinu. „Hernaðaraðgerð sem þessi er ekki fullnægjandi fyrir slíka aðgerð.“ Hann sagði að mikilvægast væri að veru Bandaríkjamanna í þessum heimshluta ljúki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert