Þotan „hönnuð af trúðum“

Boeing 737 MAX 9.
Boeing 737 MAX 9. AFP

Birting innanhúss-skilaboða hjá bandaríska flugvélaframleiðandanum Boeing hefur vakið fleiri spurningar um öryggi Boeing 737 Max-farþegaþotanna. Meðal þeirra eru samskipti milli starfsmanna þar sem starfsmaður segir að þotan hafi verið „hönnuð af trúðum“.

Boeing hefur upplýst um og birt hundruð skilaboða í þeim tilgangi að auka gagnsæi hjá félaginu. Segir félagið að sumt sem þar komi fram sé algjörlega óásættanlegt.

737 Max-farþegaþotur hafa verið kyrrsettar frá því í mars í fyrra eftir tvö mannskæð flugslys sem kostuðu tæplega 350 manns lífið.

Bandarísk flugmálayfirvöld og bandaríska þingið fengu í síðasta mánuði afhenta óritskoðaða útgáfu af samskiptum milli starfsmanna Boeing.

Í skilaboðum frá apríl 2017 svarar ónefndur starfsmaður öðrum á þennan veg: „Þessi flugvél er hönnuð af trúðum sem eru undir eftirliti frá öpum.“ 

Í öðrum skilaboðum frá nóvember 2015 kemur fram að fyrirtækið beitti sér gegn því að eftirlitsaðilar með flugi fengju upplýsingar varðandi þjálfun í flughermi. „Við munum þrýsta á þetta af fullum þunga og munum væntanlega þurfa á stuðningi að halda úr efstu lögum þegar kemur að lokasamningaviðræðunum,“ segir í skilaboðunum.

Í febrúar 2018 spyr starfsmaður Boeing starfsbróður sinn hvort hann myndi fara með fjölskyldu sína um borð í Max-þotu sem stýrt er með stafrænum hætti og bætir við að það myndi hann ekki sjálfur gera. Starfsbróðir hans svaraði neitandi. 

Frétt BBC

Frétt New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert