Ver öllu sínu fé til að losna við Trump

Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri New York og frambjóðandi í forkosningum …
Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri New York og frambjóðandi í forkosningum Demókrataflokksins vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum næsta haust. AFP

„Forgangsmál númer eitt er að losna við Donald Trump. Ég er að verja öllu mínu fé til þess að losna við Trump,“ hefur fréttaveitan Reuters eftir auðkýfingnum Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóra New York og þátttakanda í forvali Demókrataflokksins vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum næsta haust.

Mótherjar Bloombergs í forvalinu hafa sakað hann um að vilja kaupa sér útnefningu sem forsetaefni demókrata, en hann er áttundi ríkasti maður Bandaríkjanna samkvæmt tímaritinu Forbes. Bloomberg hafnar þessu í viðtalinu við Reuters. Markmiðið sé einfaldlega að koma Trump úr Hvíta húsinu. Spurningin sé einfaldlega sú hvort fólk vilji að hann verji meira eða minna fé til þess.

Þau skilaboð frá framboði Bloomberg, að hann eigi mesta möguleika á að koma Trump frá völdum, hafa verið mjög áberandi á bandarískum útvarpsstöðvum og á samfélagsmiðlum. Fram kemur í frétt Reuters að hann hafi varið meira fé til framboðs síns, síðan því var hleypt af stokkunum í nóvember, en mótherjar hans frá upphafi kosningabaráttunnar vegna forvalsins fyrir um ári.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Elizabeth Warren, einn af mótherjum Bloombergs, er á meðal þeirra sem hefur sakað Bloomberg um að ætla að kaupa forsetakosningarnar. Bloomberg segir slíkar yfirlýsingar einfaldlega pólitísk útspil. Hann segir alla þá frambjóðendur sem mælast með mest fylgi aðra en hann vera of frjálslynda til þess að geta sigrað Trump.

Bloomberg segir í viðtalinu að ein af ástæðum þess að hann sé ágætlega viss um að geta sigrað Trump sé sú að hann geti ólíkt öðrum frambjóðendum höfðað til hófsamra repúblikana sem sé nauðsynleg forsenda sigurs, en hann var í eina tíð flokksbundinn í Repúblikanaflokknum. „Hvort sem fólki líkar það betur eða verr þá er ekki hægt að vinna kosningarnar nema það takist að fá hófsama repúblikana til þess að skipta um fylkingu.“

Þá segir í fréttinni að Bloomberg mælist yfirleitt í fimmta sæti í skoðanakönnunum vegna forkosninganna á eftir Joe Biden, Bernie Sanders, Warren og Pete Buttigieg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert