Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing greindi frá því í dag að nýr galli hefði fundist í hugbúnaði hinna kyrrsettu 737 MAX-véla flugfélagsins.
Í tilkynningu frá Boeing segir að vonir standi til að málið verði leyst á skömmum tíma og að gallinn eigi ekki að leiða til enn frekari tafa við að koma 737 MAX-vélunum aftur í loftið.
Tíu mánuðir eru frá því vélarnar voru kyrrsettar á heimsvísu eftir tvö slys sem kostuðu 346 mannslíf.
„Unnið er að nauðsynlegum uppfærslum í samstarfi við bandaríska flugmálaeftirlitið,“ kom meðal annars fram í yfirlýsingu frá Boeing.
Ekki kom fram í hverju nýi gallinn felst.
Samkvæmt heimildamanni AFP-fréttastofunnar er gallinn minni háttar og felur í sér bilun í öðrum hugbúnaði þegar kveikt er á flugvélinni.