Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri New York og þátttakandi í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum næsta haust, hét því í dag að minnka bilið í dreifingu auðs milli svartra og hvítra, á kosningafundi í Oklahoma-ríki í dag.
„Þú snýrð ekki við hundruðum ára af þjófnaði og misnotkun einungis með tilraunum til að leiða í lög jöfn réttindi,“ sagði Bloomberg á fundi í Tulsa í dag, en Bandaríkin skera sig úr hópi þróaðra ríkja vegna mikillar misskiptingar auðs. Segir Reuters fréttastofan að að sögn rannsakenda seðlabanka Bandaríkjanna hafi hvít heimili (e. white househoulds) árið 2016 átt að meðaltali um sex sinnum meira en heimili svartra. Sé það svipað hlutfall og var árið 1962.
Bloomberg sagði enn fremur á fundi sínum í Tulsa að hann ætlaði að hjálpa einni milljón svartra Bandaríkjamanna að verða fasteignaeigendur yfir tíu ára tímabil, meðan hann myndi einnig fjölga fyrirtækjum í eigu svartra. Þá hét hann að verja 70 milljörðum dollara í að minnka fátækt í hverfum bágstaddra.