22 ríkir karlar ríkari en konur Afríku samanlagt

Oxfam eru ein stærstu mannúðarsamtök heims.
Oxfam eru ein stærstu mannúðarsamtök heims. AFP

Milljarðamæringar heimsins hafa orðið tvöfalt fleiri síðasta áratug og eru nú ríkari en 60 prósent jarðarbúa, að því er kemur fram í skýrslu mannúðarsamtakanna Oxfam sem var birt í dag. 

Fátækar konur og stúlkur eru neðst á efnahagsskalanum og vinna þær 12,5 milljarða klukkustunda af ólaunaðri umönnunarvinnu daglega. Er áætlað að þessar ólaunuðu klukkustundir séu virði um 10,8 billjóna dollara árlega. 

„Brotin hagkerfi okkar stækka vasa milljarðamæringa og stórfyrirtækja á kostnað almennra borgara. Það er engin furða að fólk sé í raun farið að efast um hvort milljarðamæringar ættu að vera til yfir höfuð,“ sagði Amitabh Behar, forstjóri Oxfam á Indlandi, vegna útkomu skýrslunnar. 

„Það er ekki hægt að brúa bilið á milli ríkra og fátækra án þess að setja fram markvissar stefnur sem miða að jafnrétti,“ bætti Behar við.

Afrískar konur eru á meðal þeirra allra fátækustu í heiminum.
Afrískar konur eru á meðal þeirra allra fátækustu í heiminum. AFP

0,5% aukaskattur myndi breyta miklu

Í skýrslunni kemur fram að 22 ríkustu karlmenn heims eigi meiri auð en allar konur Afríku samanlagt. Þar segir einnig að ef ríkasta eitt prósent jarðarbúa greiddi 0,5% aukaskatt af auðæfum sínum í tíu ár myndi það samsvara fjárfestingu sem þarf til að skapa 117 milljónir nýrra umönnunarstarfa.

Tölurnar sem Oxfam byggir skýrslu sína á eru byggðar á gögnum frá tímaritinu Forbes og svissneska bankanum Credit Suisse en einhverjir hagfræðingar hafa sagt tölurnar umdeilanlegar. 

Þær leiða það í ljós að 2.153 milljarðamæringar eiga meiri auðæfi en 4,6 milljarðar fátækasta fólks jarðarinnar. 

Hér má sjá misrétti heimsins á myndrænan hátt.
Hér má sjá misrétti heimsins á myndrænan hátt. AFP

Konur fastar á botni efnahagslífsins

Konur og stúlkur glíma sérstaklega við slæmar afleiðingar misskiptingar auðs vegna þess að þær sinna gjarnan umönnun sem heldur hjólum hagkerfa, fyrirtækja og samfélaga gangandi, launalaust, að sögn Behars.

„Þær hafa gjarnan lítinn tíma til að mennta sig, afla sér ágætisframfærslu eða hafa eitthvað um það að segja hvernig samfélaginu er stýrt. Þess vegna eru þær fastar á botni efnahagslífsins,“ sagði Behar.

Í skýrslu Oxfam segir að 42% kvenna um allan heim geti ekki farið út á vinnumarkaðinn vegna þess að þær beri ábyrgð á mikilli umönnun, hið sama gildir um 6% karla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert