Sagði Thunberg að læra hagfræði

Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, í Davos.
Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, í Davos. AFP

Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði sænsku stúlkunni Gretu Thunberg að læra meira áður en hún færi fram á að notkun jarðefnaeldsneytis verði hætt.

Thunberg svaraði honum þannig að það þyrfti enga gráðu til þess að skilja vísindi.

Orðaskipti þeirra endurspegla þá spennu sem ríkir vegna loftslagsvárinnar á viðskiptaráðstefnunni World Economic Forum sem stendur yfir í Davos í Sviss. Þar eru ríkisstjórnir undir þrýstingi um að bregðast við hlýnun jarðar, bæði með beinum aðgerðum og umræðum.

Greta Thunberg gengur fram hjá Filippusi, konungi Belgíu, í Davos.
Greta Thunberg gengur fram hjá Filippusi, konungi Belgíu, í Davos. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði í ræðu sinni í Davos að stjórnvöldum bæri skylda til að bregðast við áhyggjum yngri kynslóðarinnar vegna loftslagsvárinnar.

Mnuchin hafði áður ráðlagt Thunberg, sem hefur gagnrýnt stefnu Bandaríkjanna í loftslagsmálum harðlega í Davos, að læra hagfræði áður en hún færi að gefa öðrum ráð.

Spurður um kröfu hennar um að hætta undir eins að fjárfesta í jarðefnaeldsneyti sagði hann við blaðamenn: „Eftir að hún fer og lærir hagfræði í háskóla getur hún komið aftur og útskýrt þetta fyrir okkur.“

Thunberg svaraði Mnuchin á Twitter og sagði að enga háskólagráðu í hagfræði þyrfti til að átta sig á því að slæmri stöðu mála varðandi útblástur koltvísýrings og notkun jarðefnaeldsneytis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert