Tólf tilnefningar kvikmyndar Roman Polanski, J'accuse eða Ég ákæri, til frönsku César-verðlaunanna í gær hafa vakið mikla reiði í Frakklandi.
Kvikmynd Polanskis hlýtur m.a. tilnefningar fyrir bestu kvikmynd, leikstjóra, leikara í aðalhlutverki (Jean Dujardin), handrit byggt á áður útgefnu efni, klippingu, kvikmyndatöku, búningahönnun og frumsamda tónlist.
Kvikmyndin hlaut silfurverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í fyrra þar sem hún var heimsfrumsýnd. Formaður frönsku kvikmyndaakademíunnar, Alain Terzian, hefur látið þau ummæli falla að akademían taki ekki siðferðislega afstöðu í tilnefningum sínum og vísar til þess að Polanski nauðgaði 13 ára stúlku í Bandaríkjunum árið 1977 og vilja Bandaríkjamenn fá hann framseldan.
Talskona frönsku femínistasamtakanna, Osez le Féminisme, Céline Piques, segir í viðtali við frönsku sjónvarpsstöðina LCI að hún sé í áfalli yfir valinu. Að þeir 400 kvikmyndasérfræðingar sem koma að valinu skuli hafi veitt Polanski 12 tilnefningar. „Tólf er einnig tala kvenna sem hafa sakað Roman Polanski um nauðgun. Þetta snýst ekki um siðferðislega afstöðu heldur réttlæti.“
Í kvikmyndagagnrýni Karls Blöndals í Morgunblaðinu í dag er fjallað um myndina en hún er sýnd á franskri kvikmyndahátíð sem nú stendur yfir í Bíó Paradís.
Þar segir meðal annars: Í myndinni eru karlar í nánast öllum hlutverkum að frátalinni hjákonu Picquarts, sem Emmanuelle Seigner, eiginkona Polanskis, leikur.
Polanski gerir myndina um mál Dreyfus ekki í tómarúmi og ummæli hans um að hann sjái sjálfan sig í hinum franska foringja hafa verið gagnrýnd harkalega.
Polanski játaði að hafa nauðgað 13 ára stúlku í Bandaríkjunum árið 1977 gegn því að fá vægari dóm en ella. Hann flúði hins vegar til Frakklands eftir að hafa setið inni í 42 daga þegar dómarinn virtist ætla að endurskoða samkomulagið og dæma hann til þyngri refsingar. Hann hefur ekki getað snúið aftur til Bandaríkjanna síðan og Bandaríkjamenn vilja enn fá hann framseldan.
„Í sögunni sé ég stundum augnablik, sem ég hef reynt sjálfur, ég sé sama ásetninginn um að afneita staðreyndum og fordæma mig fyrir hluti sem ég hef ekki gert,“ sagði Polanski í viðtali sem birt var áður en myndin var sýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum, þar sem hún var valin næstbesta myndin.
Þóttu ummælin yfirgengileg og smekklaus. Voru mótmæli við kvikmyndahús bæði í París og Brussel þegar myndin var tekin til sýninga þar og franska kvikmyndaakademían íhugaði að vísa honum á dyr (án þess þó að gera það).
Um það leyti sem Ég ákæri var frumsýnd í fyrra komu fram nýjar ásakanir á hendur honum. Franskur ljósmyndari, Valentine Monnier, sagði að Polanski hefði nauðgað henni á herragarði sínum í Sviss árið 1975 þegar hún var 18 ára og barið sig til undirgefni. Sagði hún að samanburður Polanskis við Dreyfus hefði orðið þess valdandi að hún ákvað að stíga fram.
Polanski vísar þeim ásökunum Monnier alfarið á bug, en þær urðu hins vegar til þess að hætt var við viðtöl við hann í tilefni af myndinni, eða viðtöl, sem höfðu verið tekin, voru ekki birt.
Spurningin um hvort dæma eigi listaverk af gerðum listamannanna, hvort bækur Peters Handkes verði einskis virði vegna þess að hann gerði lítið úr stríðsglæpum Serba eða taka eigi niður myndir Pauls Gauguins vegna þess að hann níddist á unglingsstúlkum í Frönsku-Pólýnesíu, verður seint til lykta leidd.
Það er ógerningur að leiða þessi mál Polanskis hjá sér þegar horft er á myndina og Polanski á mikla sök á því sjálfur með ummælum sínum. Með þeim er hann ekki bara að líkja sér við manninn, sem þrátt fyrir flekklausan feril var saklaus dæmdur til að dúsa einn á Djöflaeynni vegna þess að hann var gyðingur. Undirliggjandi er að hann hafi af sömu ástæðum verið ofsóttur flóttamaður. Ég ákæri er góð mynd þótt hún missi aðeins ferð þegar á líður og Polanski fer að keppast við að hnýta lausa enda, en það er erfitt að horfa á hana án þess að finna til ónota vegna samhengisins sem leikstjórinn setur verk sitt í. Það segir hins vegar sína sögu að hvað sem öllu líður var Ég ákæri mest sótta myndin í Frakklandi á liðnu ári og í gær var tilkynnt að hún hefði fengið flestar tilnefningar til Cesar-verðlaunanna eins og franski Óskarinn kallast, tólf alls,“ segir í gagnrýni Karls Blöndals í Morgunblaðinu í dag.