Kínverski læknirinn Li Wenliang, sem varaði almenning við nýju kórónuveirunni í byrjun þessa árs og hlaut viðvörun fyrir vikið, er látinn.
Frá þessu greinir Global Times á Twitter.
#Breaking: Chinese doctor Li Wenliang, one of the eight whistleblowers who tried to warn other medics of the #coronavirus outbreak but were reprimanded by local police, dies of coronavirus on Thursday in Wuhan, the Global Times has learned. pic.twitter.com/jzM6DF0CWE
— Global Times (@globaltimesnews) February 6, 2020
Greint hafði verið frá því að Wenliang hefði reynt að vara samstarfsfólk sitt við kórónuveirunni. Skömmu síðar var hann boðaður á fund kínversku lögreglunnar, þar sem hann var vinsamlegast beðinn að hætta að dreifa slúðursögum.
Hann hefur síðan verið hylltur sem hetja fyrir að deila sögu sinni á samfélagsmiðlum. „Sæl öll, þetta er Li Wenliang, læknir á Wuhan-spítalanum,“ segir í upphafi færslu hans á samfélagsmiðlinum Weibo.
Æðstu embættismenn í Kína viðurkenndu nýlega að ekki hefði verið brugðist nógu hratt við þegar kórónuveiran greindist fyrst í borginni Wuhan undir lok síðasta árs. Þá hafa yfirvöld jafnframt viðurkennt að gallar hafi verið á þessum fyrstu viðbrögðum.