Spænska herlögreglan handtók nýlega 42 manns vegna umfangsmikils smygls á sorpi frá Madríd til Suðaustur-Asíu. Fólkið er grunað um umhverfisglæpi og peningaþvætti og er sakað um að hafa stolið papparusli sem kostaði borgaryfirvöld um 16 milljónir evra í tekjur, eða sem nemur rúmum 2,2 milljörðum króna.
Á myndskeiði sem Europol hefur birt má sjá þegar fólk kafar eftir papparusli í þar til gerðum tunnum í borginni og flytur það í sendibíla þaðan sem því er ekið á brott. Rannsóknin, sem er samstarfsverkefni spænsku herlögreglunnar, Europol og embætti saksóknara á sviði umhverfis- og borgarmála, beindist að einu tilteknu fyrirtæki í borginni sem sérhæfir sig í sorphirðu.
Fyrirtækið hefur í fimm ár blandað saman sorpi sem safnað er samkvæmt reglum og sorpi sem safnað er með ólögmætum hætti og flutt það út til Suðaustur-Asíu, aðallega Kína, Indlands, Indónesíu og Suður-Kóreu.
Rannsóknin leiddi meðal annars í ljós að 9.300 tonn af pappír hafa verið flutt úr landi að andvirði 2,3 milljónir evra, eða sem nemur rúmum 375 milljónum króna. Þá kom lögreglan upp um 278 ólöglegar vörusendingar af papparusli eða um 67 þúsund tonn.