Alls hafa 910 látist af völdum kórónuveirunnar 2019-nCOV og 40.573 eru smitaðir. Eins og áður eru langflest smit í Kína, eða rúmlega 40 þúsund. 3.497 manns hafa jafnað sig að fullu af veikindunum.
Sérfræðingar við verkfræðideild John Hopkins-háskóla í Maryland í Bandaríkjunum hafa útbúið gagnvirkt kort þar sem hægt er að fylgjast með útbreiðslu kórónuveirunnar. Kortið má nálgast hér en það er uppfært reglulega.
Þar má meðal annars sjá útbreiðslu veirunnar. Tilfelli vegna hennar hafa komið upp í Frakklandi, Bretlandi, Rússlandi, Ítalíu, Þýskalandi, Belgíu, Finnlandi, Svíþjóð og á Spáni.
Breskir fjölmiðlar greina frá því að þarlend stjórnvöld lýsi útbreiðslunni sem alvarlegri ógn við lýðheilsu í landinu. Alls eru átta staðfest tilfelli í Bretlandi og eru smitaðir í sóttkví á spítala í London.
Þar í landi geta heilbrigðisyfirvöld skikkað fólk sem greinist með veiruna í sóttkví en stjórnvöld hyggjast grípa til frekari aðgerða til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar.