Sagði Rússum að halda sig fjarri kosningunum

Bernie Sanders.
Bernie Sanders. AFP

Bernie Sanders, sem sækist eftir tilnefningu Demókrataflokksins, í embætti forseta Bandaríkjanna, hefur fordæmt Rússa fyrir meint afskipti af kosningaherferð hans og hvetur þá til að „halda sig fjarri bandarískum kosningum“.

Sanders greindi frá því í gær að bandarískir embættismenn hefðu sagt honum í síðasta mánuði frá tilraunum Rússa til að hjálpa til við kosningaherferðina hans.

Sanders sagði í Bakersfield í Kaliforníu að óljóst væri hvernig Rússar hygðust skipta sér af. Hann lýsti yfir mikilli óánægju með þær tilraunir, að sögn BBC.

Vladimir Pútín Rússlandsforseti.
Vladimir Pútín Rússlandsforseti. AFP

Hann fór ófögrum orðum um Vladimir Pútín, forseta Rússlands og sagði að ríkisstjórn hans „notaði áróður á netinu til að reyna að skipta okkar landi í tvær fylkingar“.

„Verum alveg með það á hreinu að Rússar vilja grafa undan lýðræði í Bandaríkjunum með því að skipta okkur í tvær fylkingar. Ólíkt núverandi forseta er ég andvígur tilraunum þeirra og öllum öðrum erlendum ríkjum sem vilja skipta sér af kosningunum okkar,“ sagði Sanders.

Sem stendur er hann talinn líklegastur til að hljóta tilnefningu Demókrataflokksins í embætti forseta Bandaríkjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert