Bernie Sanders vann öruggan sigur í forvali Demókrataflokksins í Nevada-ríki í Bandaríkjunum í gær. Nú þegar helmingur atkvæða hefur verið talinn hefur Sanders fengið tæplega 47% þeirra.
Næstur á eftir Sanders er varaforsetinn fyrrverandi, Joe Biden, en hann er með rúmlega 19% atkvæða. Þar á eftir kemur Pete Buttigieg, sem vann nauman en óvæntan sigur í Iowa og fylgdi fast á eftir Sanders í New Hampshire, með 15,4% atkvæða.
Elizabeth Warren hefur rúm 10% atkvæða eftir að helmingur þeirra hefur verið talinn og Amy Klobuchar 4,5% atkvæða.
Með sigrinum í Nevada þykir Sanders hafa styrkt mjög stöðu sína í forvali demókrata, en forvalið í Nevada er það fyrsta þar sem yfirgnæfandi meirihluti kjósenda er ekki af hvítri millistétt.
Buttigieg, sem er enn sem komið er annar í forvali flokksins eftir kosningar í fyrstu ríkjunum þremur, notaði ræðu sína í Nevada í gærkvöldi til þess að vara fólk við að tilnefna Sanders sem forsetaefni Demókrataflokksins, því hreyfing hans boðaði ósveigjanlega, hugmyndafræðilega byltingu sem myndi óumflýjanlega kljúfa bandarísku þjóðina.