Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) hvetur til stillingar við landamæri Tyrklands eftir að Tyrkir opnuðu landamærin sín fyrir helgi. Af því tilefni sagði Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, að Evrópa yrði að taka ábyrgð á sínum hluta af flóttamannabyrðinni.
Fjölmargir flóttamenn hafa þegar haldið yfir landamæri Tyrklands til Grikklands. Flóttamannastofnunin ítrekar að stjórnvöld grípi ekki til aðgerða sem eru til þess fallnar að auka á vanda fólks sem er í slæmri stöðu fyrir.
Frá því landamærin opnuðu höfðu um 1.200 flóttamenn farið yfir til Grikklands í gær og í morgun. Það eru mun fleiri en hafa farið þangað yfir undanfarið. Birgðir af mat, þurrum fötum og teppum eru uppurnar. Beðið er eftir frekari varningi á Lesvos, Chios og Samos í Grikklandi.
Grikkland og önnur ríki í Evrópu mega ekki ein takast á við flóttamannastrauminn.
Í Tyrklandi hafast nú þegar við um 3,6 milljónir sýrlenskra flóttamanna en yfirvöld þar í landi óttast að fleiri komi til landsins.