Karlmenn líklegri til að deyja vegna kórónuveiru

Ónæmiskerfi kvenna virðist betur í stakk búið til að berjast …
Ónæmiskerfi kvenna virðist betur í stakk búið til að berjast gegn veirunni. AFP

Karlmenn eru allt að 65 prósent líklegri til að deyja af völdum kórónuveirunnar heldur en konur ef marka má þær tölur sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og kínverskir vísindamenn hafa birt. Ef staðfest tilfelli af kórónuveiru eru skoðuð kemur í ljós að dánartíðni meðal karlmanna er 4,7 prósent en aðeins 2,8 prósent meðal kvenna. Eldri karlmenn virðast vera í mestri hættu. Konur og karlar virðast þó jafnlíkleg til að smitast af veirunni. The Telegraph greinir frá.

Einhverjir vísindamenn vilja meina að skýringin geti verið sú að karlmenn eru líklegri til að reykja eða misnota áfengi á meðan aðrir telja að karlmenn séu líklegri til að hafa undirliggjandi sjúkdóma, eins og hjartasjúkdóma og sykursýki sem geri þá varnarlausari gagnvart sýkingum.

Dánartíðni vegna veirunnar er enn ekki alveg á hreinu en hún virðist vera á bilinu 1 og upp í 3,8 prósent en það liggur fyrir að hún er margfalt hærri hjá þeim sem eru með undirliggjandi sjúkdóma.

Paul Hunter, prófessor í læknisfræði við University of East Anglia, telur að konur séu einfaldlega með betra ónæmiskerfi en karlmenn og líkami þeirra því færari um berjast gegn veirunni. „Munurinn getur stundum stafað af því að karlmenn eru líklegri til að reykja og misnota áfengi en ónæmisviðbrögð kvenna eru einfaldlega öðruvísi en karla,“ útskýrir Hunter. Þetta getur stundum verið konum í hag, en þó ekki alltaf.

„Konur virðast hafa öflugra ónæmiskerfi sem gerir það að verkum að þær þjást oftar af sjálfsofnæmissjúkdómum eins og gigt. Þetta virðist hins vegar vera jákvætt þegar kemur að því að berjast gegn sýkingum, sérstaklega inflúensu.“

Þá virðast börn síður smitast af kórónuveiru en fullorðnir og fá þá vægari einkenni. Ekkert dauðsfall hefur verið skráð hjá barni undir 10 ára og dánartíðnin er aðeins 0,2 prósent hjá fólki á aldrinum 10 til 40 ára.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert